151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talaði um orwellska orðanotkun og ég gat ekki annað en gripið það. Ég bendi hv. þingmanni á að ávana- og fíkniefnalöggjöfin sem við búum við kom til aldarfjórðungi eftir dauða Orwells. Því var orwellsk orðanotkun vel þekkt og vel notað fyrirbæri á þeim tíma. Rímar það ágætlega við ræðu hv. þingmanns en hann velti fyrir sér hugtökunum eiturlyf, vímuefni og fíkniefni og taldi það eitthvað orwellskt.

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á, eins og flestir geta vitað sem hafa alla vega séð vímuefni í lífinu, að til eru vímuefni sem eru ekki fíknivaldandi. Til dæmis er LSD ekki talið fíkniefni vegna þess að það veldur ekki fíkn. Þvert á móti, ef fólk prófar LSD einu sinni eða tvisvar er líklegra að það prófi það aldrei nokkurn tímann aftur ef út í það er farið. Ekki er hægt að sjá að nein sérstök eitrunaráhrif séu af því þótt víman sé mjög sterk. Þess vegna er einfaldlega réttara að kalla þessi efni vímuefni. Það er það sem þau eru. Hins vegar eru hugtök eins og eiturlyf notuð á orwellskan hátt til að búa til úr fyrirbærinu eitthvert skrímsli, eitthvert ógeð sem verður að bregðast við með einhvers konar hernaðarlöggjöf eins og lögum um ávana- og fíkniefni sem gerð voru í þeim tilgangi að sigra hið vonlausa dópstríð svokallað.

En það sem veldur mér mestu hugarangri eftir ræðu hv. þingmanns um orwellska orðanotkun er hvernig hann notaði hugtakið mannúð, virðulegi forseti. Ég á varla orð. Hv. þingmaður stendur hér í pontu og ver að í refsilöggjöf séu viðbrögð samfélagsins við vímuefnaneyslu og vandræðum fólks sem á við hana að etja og ætlar að kalla það mannúð.

Virðulegur forseti. Meiri öfugmæli hef ég ekki heyrt hér í pontu. Er það í alvörunni afstaða hv. þingmanns, í alvörunni, að það sé mannúð að refsa vímuefnaneytendum?