151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði haldið að hv. þingmaður gæti tekið undir það með mér að orwellsk orðanotkun hafi aukist til muna í seinni tíð í samfélaginu. En kannski er það á misskilningi byggt eins og þegar ég hélt að hv. þingmaður hefði talsverðar frjálslyndishugsjónir. Hann leiðrétti mig á sínum tíma og upplýsti mig um að hann væri fyrst og fremst jafnaðarmaður en þeir geta nú verið stjórnlyndir að eðlisfari.

Talandi um frjálslyndi gengur það einmitt fyrst og fremst út á að menn geti rökrætt hlutina og haft á þeim ólíkar skoðanir. Frjálslyndi er ekki það sama og að gefa allt frjálst. Frjálslyndi snýst um að leita bestu leiðanna, ekki hvað síst bestu leiðanna til að hjálpa fólki, gera líf þess betra. Þess vegna finnst mér sérkennilegt að hv. þingmaður bregðist svona illa við því að ég tali um að mannúð felist í að grípa inn í og hjálpa fólki sem þarf á hjálp að halda, jafnvel þótt það fólk geri sér á köflum ekki grein fyrir þörfinni fyrir hjálp eða hafi ekki kraft í að falast eftir henni. Þegar menn sjá einhvern í neyð er mannúð að grípa inn í og hafa þá einhver tæki til þess. Að búa til tæki til að grípa inn í og hjálpa þeim sem eru í neyð, það er mannúð, herra forseti, og undarlegt að hv. þingmaður skuli hneykslast á því.

Hv. þingmaður telur líka mjög óviðeigandi að búa til eitthvert skrímsli úr fíkniefnum eða eiturlyfjum. LSD er vissulega eiturlyf, herra forseti. Hvort sem við köllum það fíkniefni eða ekki er það eiturlyf. Eiturlyf eru skrímsli. Þau eru eitt hættulegasta skrímslið sem samfélagið stendur frammi fyrir. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við að hafa úrræði til að berjast við það skrímsli (Forseti hringir.) þó að sú barátta verði kannski aldrei fullunnin.