151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma lagði ég mikið á mig við að reyna að skilja þankagang Pírata og taldi að mér hefði orðið nokkuð ágengt. Svo kemur alltaf bakslag eins og hér í dag. Hvernig það er ekki spurning um mannúð að hafa tæki í lögum til að hjálpa fólki sem þarf á hjálp að halda skil ég ekki, enda er ekki verið að refsa fólki almennt fyrir neysluskammta fíkniefnis í þeim skilningi að því sé stungið í fangelsi, eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Ég tók fram að gjarnan mætti líta til þess að útmá slíkt af sakaskrá fólks en til staðar þarf að vera möguleikinn á því annars vegar að halda fólki frá því að ánetjast fíkniefnum og hins vegar að grípa inn í og hjálpa þeim sem hafa ánetjast og þurfa á hjálp að halda. Það er mannúð.