151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:18]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar bara til þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna af því að mér finnst hún vera dálítið mikilvæg. Hún varpar nefnilega ljósi á þá fordóma og það skilningsleysi á ástandinu sem enn er til staðar í samfélaginu í dag. Það skiptir rosalega miklu máli að við vörpum ljósi á það og við ræðum það og komumst að rótinni. Hvaðan kemur þetta? Hver er þessi hræðsla? Þess vegna eru svona samtöl mikilvæg.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér grein fyrir því þegar kemur að fíkn hversu mikið þessi vísindi eru búin að þróast síðan lög um ávana- og fíkniefni voru sett? Þekkingin á því hvað veldur fíkn er til staðar í dag. Við vitum að það er ekki lengur efnið sjálft, heldur er það þessi jaðarsetning og tengslarof sem er til staðar hjá einstaklingi sem er fíkill, áföllin sem hann hefur lent í, sem gerir það að verkum að hann verður fíkill, á meðan aðrir sem neyta sama vímuefnis verða ekki fíklar. Þetta frumvarp snýst um það. Það snýst um að aðstoða þessa einstaklinga út frá þeirri bestu þekkingu sem við höfum í dag á því hvað fíkn er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Veit hann eitthvað um hvað hann er að tala? Er það tilfinningin fyrir því að þetta hljóti að vera rangt út af skilaboðunum sem þetta gefur? Er þetta byggt á einhvers konar vísindalegri þekkingu á því hvað fíkn er og hvernig best er að meðhöndla hana? Af því að ég get ekki heyrt það. Ég hef lagt það á mig að stúdera þessi vísindi og ég get ekki heyrt það á orðræðu þingmannsins að hann þekki þessi vísindi. Ég heyri bara hræðslu.