151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu eiga menn að þora að leita eftir aðstoð þegar hennar gerist þörf. En mér finnst svolítið sérkennilegt hvernig dregin er upp sú mynd að menn lendi í vandræðum ef þeir gera það. Það er bara alls ekki þannig. Það er ekki stundað hér að stinga fólki í fangelsi fyrir neysluskammta af fíkniefnum eða fyrir að hringja á sjúkrabíl ef einhver er í hættu. En eins og ég hef getið um núna nokkrum sinnum þá er örugglega fullt tilefni til þess að skoða hvort ekki eigi að afmá slík atvik úr sakaskrám fólks til að gera því kleift að losna undan slíkri fortíð. En ef við viljum vernda fólk, eins og hv. þingmaður tekur hér dæmi af, í samkvæmi, þá hljótum við að vilja vernda það fyrir því að hafa aðgengi að þessum efnum, að þau séu lögð á borðið fyrir framan það og sagt: Viltu ekki bara að prófa? Ríkið segir að það sé í lagi.