151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[17:59]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Svo að ég svari þessari vangaveltu um það sem ég las í umsögnum, hvort hægt væri að lögleiða efni sem er ólöglega flutt inn, þá velti ég upp þeirri spurningu hvort hægt sé að lögleiða efni í neysluskömmtum eins og þetta sem er ólöglega flutt inn. Ég get ekki farið neitt dýpra í það. Ég man nú ekki spurningu númer tvö. (ÞSÆ: Hvort það hefði hjálpað hv. þingmanni að takast á við vandann ef áfengi hefði verið bannað.) — Ég held að ég hafi nú ekkert verið að velta því fyrir mér þegar ég var í neyslu hvort það væri löglegt eða ólöglegt sem ég lét ofan í mig. Ég á eiginlega mjög bágt með að svara þessu.

Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram í ræðu minni áðan að ég er ekki á móti hugmyndinni að hjálpa fólki sem neytir ólöglegra vímuefna, ég hef alls ekki sagt það, en ég hef ekki trú á því að sú leið sem verið er að fara hér hjálpi eða geri það gagn eins og lagt er upp með. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Hvað er neysluskammtur? Það er það sem stendur upp úr í máli mínu: Hvað er neysluskammtur? Þess vegna er ég ekki með á þessu máli, því að ég veit það að einn skammtur sem dugar einum getur drepið annan.