151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur mikið verið talað um breytingar á lögum og reglum á Íslandi sem tengjast vímuefnum. Stefnurnar sem Ísland notast við í þessum málaflokki eru svokallaðar hamlandi stefnur. Eru þær notaðar í nágrannaríkjum okkar og flestum vestrænum ríkjum. Sé einstaklingur tekinn með fíkniefni, sama hversu lítill skammturinn er, er brotið sett á sakaskrá og verður þar í þrjú ár, en samt sem áður er brotið aðgengilegt opinberum aðilum í sjö ár eftir að það fer á sakaskrá. Ég tel sjálfsagt, herra forseti, að endurskoða þetta ákvæði. Það á ekki að þurfa að fylgja fólki um árabil ef það hefur misstigið sig hvað þetta varðar og brotið er minni háttar. Einstaklingar sem teknir eru með neysluskammt eru dæmdir til að greiða sekt eða gegna samfélagsþjónustu. Ef um ítrekuð brot er að ræða er fangelsisrefsivist beitt.

Herra forseti. Ég held að almenningur sé ekki hlynntur þeirri stefnu að lögleiða neysluskammta fíkniefna hér á landi, eins og þetta frumvarp heilbrigðisráðherra kveður á um. Ég er þeirrar skoðunar að taka þurfi upp fleiri meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur og auka fræðslu og efla forvarnir til muna. Það er mikilvægt að hjálpa fíkniefnaneytendum og tryggja að þeir fái þá aðstoð sem þeir þurfa ef þeir vilja hana.

Í þessu frumvarpi kemur oft fyrir orðið afglæpavæðing, sem er nú hálfgert orðskrípi, en er eitt af þeim orðum sem ríkisstjórnin notar til að setja málin í fallegan búning, rétt eins og hún notaði orðið þungunarrof í staðinn fyrir fóstureyðingu. Afglæpavæðing hefur ekki beint eina sérstaka, alþjóðlega merkingu, en felur í sér að breyta því hvort hegðun sé talin refsiverð eða ekki. Eitthvað sem var þá glæpur er það ekki lengur en er þó heldur ekki löglegt. Með afglæpavæðingu vímuefna er átt við að ekki er lengur refsivert með lögum að hafa í fórum sínum neysluskammta af vímuefnum, skammt sem er óskilgreindur og enginn veit í raun og veru hversu stór hann er. Hvergi er talað um það í þessu frumvarpi. Brotið fer þá ekki lengur á sakaskrá einstaklinga. Það er þá leyfilegt í flestum tilfellum að kaupa, eiga og neyta vímuefnanna. Munurinn á að afglæpavæða eða lögleiða er sá að vímuefni yrðu gerð lögleg, farið væri með þau eins og áfengi eða sígarettur. Sala og dreifing þeirra væri leyfð og þau yrðu skattlögð en það þyrfti líklega að lúta ákveðnum skilyrðum, líkt og aldurstakmörkum kaupanda, reglum um sölustaði og þess háttar. Það er munurinn á því að afglæpavæða eða lögleiða.

Herra forseti. Hvert er markmið þessa frumvarps? Ef þetta er einnig heilbrigðismál, er það ekki þá heilbrigðismál að taka fíkniefni af fólki? Maður spyr sig að því. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að lögreglan hafi hvorki heimild né skyldu til að gera fíkniefni, svokallaða neysluskammta, upptæka. Hér á t.d. að ganga lengra en í Noregi, eins og kemur fram á bls. 7 í frumvarpinu. Maður spyr sig: Þurfum við Íslendingar alltaf að ganga lengra en aðrar þjóðir? Ganga lengra í að lögleiða fíkniefni, ganga lengra í fóstureyðingum, veita bestu þjónustuna fyrir hælisleitendur svo útgjöld til málaflokksins verða stjórnlaus o.s.frv.

Fjölskyldur neytenda fíkniefna eru oftast sá hópur sem er mest á móti lögleiðingu fíkniefna. Fólkið í kringum þá sem nota vímuefnin; fjölskylda, vinir og nærsamfélag, finnst það missa mátt sinn til að skipta sér af gjörðum neytandans ef búið er að lögleiða neysluna. Vilja aðstandendurnir að áfram verði hægt að refsa öllum sem koma að vímuefnum, hvort sem það er framboðið eða eftirspurnin, því að þeir telja að það muni koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á fíkniefnum. Ekki finnst þeim nóg að refsa bara einstaklingunum sem bjóða upp á efnin. Með því að refsa með lögum þeim sem neyta efnanna með annaðhvort fangelsisvistun eða setja einstaklinginn á sakaskrá, telja þeir að koma megi í veg fyrir að ungt fólk muni prófa efnin. Ungir einstaklingar eru áhættuhópur því að þegar þeir komast í vímuefni getur það fljótt orðið með þeim hætti að þau dreifast milli manna því að yngri einstaklingar gera sér ekki grein fyrir hættunni sem fylgir efnunum. Því verður að vera hægt að koma reglu á neyslu þeirra með lögum. Einnig er dýrt fyrir samfélagið að senda fólk í meðferð og þeir sem nota vímuefni þurfa oft á meiri læknisaðstoð að halda en þeir sem nota þau ekki.

Þeir sem eru á móti þeirri hugmyndafræði sem birtist í þessu frumvarpi telja að með því að banna neysluna með lögum sé hægt að koma í veg fyrir þennan aukakostnað fyrir samfélagið. Önnur rök gegn því að lögleiða neysluna, lögleiða neysluskammta, er að einstaklingar undir áhrifum vímuefna geta skaðað annað fólk, hvort sem það er einhver úti á götu eða fjölskyldumeðlimur. Þetta kemur m.a. fram í BA-rannsókn Lísbetar Grönvaldt Björnsdóttur við Háskólann á Akureyri. Þetta er sem sagt rannsóknarvinna sem hefur leitt þetta í ljós hjá aðstandendum þeirra sem neyta fíkniefna.

Vímuefni eru skaðleg, t.d. getur kókaín og amfetamín valdið hjartaáfalli eða heilablóðfalli. Alsæla eða E-töflur eru skaðlegar fyrir heilann og valda minnisleysi og LSD geti valdið varanlegu geðrofi. Þetta er allt saman þekkt. Að hafa vímuefni ólögleg gerir það að verkum að margir eru hræddir við þau og það hjálpar til við að halda mörgum frá hættunni. Því ætti ekki að lögleiða neysluskammta. Þeir sem nota vímuefni ættu ekki að fá að gera það löglega þar sem þeir hugsa ekki rökrétt, eru meðvitað að skaða sjálfa sig og geta því ekki tekið réttar ákvarðanir um neyslu sína. Þetta er skoðun þekkts prófessor á þessu sviði við Rice-háskólann í Bandaríkjunum.

Herra forseti. Ég vil hér í lokin nefna aðeins sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þessu alvarlega máli. Þetta er stjórnarfrumvarp, frumvarp frá ríkisstjórninni þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eiga aðild. Það er því lagt fram með stuðningi þessara flokka. Fyrir fáum árum í umræðu um þessi mál hér á þingi voru þingmenn Framsóknarflokksins þeir einu sem ekki voru sammála öðrum þingmönnum um að breytingar væru þarfar. Þeim þótti nóg að taka betur á framboði vímuefna á Íslandi og auka forvarnir. Nú ætlar Framsóknarflokkurinn, sem lengi barðist gegn fíkniefnum og hafði á stefnuskrá sinni að gera Ísland fíkniefnalaust, að fara að lögleiða neysluskammta af fíkniefnum og banna lögreglunni að gera fíkniefni í vörslu einstaklinga upptæk. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti. Aðeins einn þingmaður Framsóknarflokksins hefur tekið þátt í þessari umræðu hér og er hún fylgjandi lögleiðingu neysluskammta af fíkniefnum.

Síðan er það Sjálfstæðisflokkurinn, sem eitt sinn var íhaldsflokkur og stóð vörð um lög og reglu í landinu. Hlutur Sjálfstæðisflokksins er mjög athyglisverður í þessu máli. Það er í raun Sjálfstæðisflokkurinn sem á frumkvæðið að þessu slæma máli. Það var í Reykjavík fyrir rúmum sex árum á fundi Félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík að Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lýsti því yfir að hann hefði efasemdir um refsistefnuna hvað fíkniefni varðar. Kristján sagði þá, með leyfi forseta: Ég er mjög hallur undir þá skoðun að við eigum að reyna að afglæpavæða neysluna í þessum málum. Talað var um að þessi yfirlýsing ráðherra Sjálfstæðisflokksins væri tímamótayfirlýsing. Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið þátt í þessari umræðu. Enginn. Ég lýsi sérstaklega eftir þeim hér. Gott væri t.d. að hv. þm. Brynjar Níelsson léti nú sjá sig í þingsal. Sjálfstæðisflokkurinn hefur brugðist í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, herra forseti, rétt eins og hann brást í fóstureyðingamálinu, flokkur sem eitt sinn barðist gegn fóstureyðingum.

Herra forseti. Þetta er slæmt frumvarp og Miðflokkurinn er á móti því. Það er verið að senda slæm skilaboð út í samfélagið með því að lögleiða neysluskammta af fíkniefnum, neysluskammta sem ólöglegt er að flytja inn í landið og ólöglegt er að selja. Með þessu frumvarpi er verið að skapa meira vandamál en við lagfærum.