151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

fátækt á Íslandi.

[14:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið hér í seinna sinn til að tala á nokkuð jákvæðum nótum hvað varðar áframhaldandi horfur þó svo að áfram standi spurningar mínar til hæstv. ráðherra sem ég vona að hann muni eftir að svara.

Ég rakst á pistil frá 2018 við undirbúning þessarar umræðu, eftir Sigurð Má Jónsson þar sem hann fer nokkuð vel yfir málin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt nýjustu tölum OECD er jöfnuður hvergi meiri í aðildarríkjunum en einmitt á Íslandi, ef miðað er við Gini-stuðulinn, en það eru svo sem engin ný sannindi. Alþjóðlegur samanburður Gini-stuðla á vef Hagstofunnar sýnir svart á hvítu að tekjuójöfnuður hafi verið minnstur á Íslandi meðal Evrópu­ríkja árið 2016.“

Þetta eru ágætisfréttir. Þróunin er í rétta átt en þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þó svo að nú kunni horfur að hafa breyst. Vonandi getum við leyft okkur ákveðna bjartsýni um að það takist að efna fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem gengur út á að útrýma fátækt fyrir árið 2030. En það er enn brýnna að hafa í huga að ráðast þarf í frekari aðgerðir ef ekki á að koma til bakslags. Ég minni á það sem ég sagði áðan þegar ég vitnaði til skýrslu Barnaheilla: Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fátæktin flyst á milli kynslóða.