Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

fátækt á Íslandi.

[14:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Við dæmum fólk úr leik með fátækt. Það er ólíðandi gagnvart þeim sem í því lenda, konum og körlum, ungum og öldnum, börnum, fyrst og fremst börnum, sem eiga ekki að þurfa að búa við fátækt. Að festast í fátæktargildru og hafa enga leið út úr henni er vítahringur sem verður að rjúfa. Þar verður samfélagið allt að koma að. Fátækt bitnar nefnilega ekki aðeins á þeim sem í henni lenda heldur samfélaginu öllu. Hvert er tjón samfélagsins af hverri manneskju sem ekki fær að nýta hæfileika sína til fulls vegna fátæktar? Fátækt er sóun á mannauði, svo að ég noti tungutak sem meira að segja frjálshyggjan skilur. Það er verkefni okkar allra að vinna gegn fátækt. Það gerum við með stuðningi hins opinbera. Núverandi ríkisstjórn hefur gripið til ýmissa góðra ráða í þeim efnum en við sem samfélag verðum að halda áfram og gera betur, leggja meira á okkur, breyta meiru, styðja meira. Þar kemur ríkisvaldið inn en einnig sveitarfélögin með framfærslustuðning sinn sem hefur því miður allt of lítið hækkað á síðustu árum. Öryggisnet samfélagsins er nefnilega ofið bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Við þurfum að beita skattkerfinu betur. Við þurfum að endurskoða framfærslukerfi öryrkja og ýmislegt fleira, hækka laun. Fyrst og fremst er það verkefni okkar að sjá til þess að í ríku landi eins og Íslandi, í velmegunarsamfélaginu okkar, líði enginn skort. Það á nefnilega enginn að þurfa þess.