151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði .

689. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum á vátryggingamarkaði og bankamarkaði. Frumvarpið er á þskj. 1159 og er mál nr. 689. Tilurð frumvarpsins má rekja til þriggja þátta. Í fyrsta lagi byggist efni þess á ábendingum frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem hefur greint annmarka eða ósamræmi í lögum við eftirlitsstörf sín á vátryggingamarkaði. Í öðru lagi er ákveðnum breytingum frumvarpsins ætlað að bregðast við athugasemdum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Í þriðja lagi hefur frumvarpið að geyma ákvæði sem ætlað er að ljúka eða tryggja rétta innleiðingu Evrópugerða.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum. Þetta eru lög um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, lög um dreifingu vátrygginga, nr. 62/2019, lög um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, lög um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum, nr. 61/2017, og lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Breytingar frumvarpsins eru að meginstefnu til breytingar á hugtökum og orðalagi sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir ranga túlkun eða vafatilvik. Dæmi um breytta hugtakanotkun í frumvarpinu er tillaga um að hugtakinu forstjóri verði skipt út fyrir hugtakið framkvæmdastjóri í lögum um vátryggingastarfsemi. Ástæða þeirrar breytingar er sú að hugtakið forstjóri er ekki notað í öðrum lögum á fjármálamarkaði. Annað dæmi um breytta hugtakanotkun er ný skilgreining á hugtakinu viðskiptavinur í lögum um vátryggingarsamninga til aðgreiningar frá hugtakinu vátryggingartaki. Hugtakið viðskiptavinur er þýðingarmikið samkvæmt þeim lögum þar sem inntak þess nær til bæði vátryggingataka og hugsanlegra viðskiptavina, þ.e. þeirra sem á endanum gera ekki vátryggingarsamning. Rík upplýsingaskylda hvílir á þeim sem dreifa vátryggingum og skýrt þarf að vera hvaða upplýsingar þeim beri að veita annars vegar viðskiptavini og hins vegar vátryggingartaka.

  Helstu breytingar frumvarpsins eru á ákvæðum í lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um dreifingu vátrygginga sem fjalla um hæfni- og hæfisskilyrði. Sömu grundvallarreglur gilda um þessi atriði á vátryggingamarkaði og öðrum fjármálamörkuðum og mikilvægt að það endurspeglist í lögum. Ég vil árétta að breytingarnar eru ekki nýmæli á fjármálamarkaði heldur er um að ræða lagfæringar sem taka mið af orðalagi sams konar ákvæða í öðrum lögum. Verði frumvarpið að lögum munu samræmdari reglur en nú eru gilda um hæfni- og hæfisskilyrði á vátryggingamarkaði, bankamarkaði, verðbréfamarkaði og lífeyrismarkaði.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru fyrst og fremst tæknilegar og varða löggjöf á vátryggingamarkaði. Í því samhengi má nefna að umboðsmaður Alþingis hefur í álitum sínum og bréfum lagt áherslu á að orðalag og framsetning lagaákvæða sé þannig að þeir sem telja sig eiga réttindi á grundvelli þeirra geti áttað sig á því hvort þeir uppfylli almenn skilyrði.   Efni þessa frumvarps samræmist ábendingum umboðsmanns þar sem kveðið er á um skýrari framsetningu í lögum og samræmingu á samkynja ákvæðum í mismunandi lögum. Tillögur frumvarpsins eru til einföldunar og hagsbóta fyrir neytendur, fyrirtæki og aðila á vátryggingamarkaði. Þá hefur það jákvæð áhrif á eftirlitsstörf Fjármálaeftirlitsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.