151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Það er kannski rétt að byrja á því að segja að það var rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann sagði áðan að þetta væri rosalega flókið mál. Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er stórt og flókið og mig langar í ræðu minni aðeins að fjalla um það hversu stórt og hversu flókið það er og hvers vegna það er á margan hátt beinlínis hættulegt. En áður en ég fer þangað langar mig til að fjalla um nokkur atriði sem snúa að þessu tiltekna frumvarpi því að það er stórt samhengi í þessu öllu.

Ég ætla að byrja á því að nefna 1. gr. Það er stórkostlega áhugavert að í raun er verið að fjarlægja 16 og 17 ára fólk sem er á vinnumarkaði út úr lífeyrissjóðakerfinu í grundvallaratriðum. Í bréfi frá Alþýðusambandi Íslands, sem kom áðan, segir, með leyfi forseta: „Hækkun lífeyrisgreiðslualdurs úr 16 árum í 18 ár gengur í berhögg við kjarasamning ASÍ og SA um lífeyrismál. Fyrir þessari aldursmismunun eru engin haldbær rök.“

Ég er sammála þessu en ég held að það megi jafnvel ganga örlítið lengra og segja að það að gera þetta, í ljósi þess að það er mótframlag vinnuveitanda sem sparast fyrst og fremst með þessu, felur í sér 14% kjaraskerðingu fyrir alla sem eru 16–18 ára gamlir. Það er, held ég, mjög ósanngjarnt og líka mjög hættulegt fordæmi vegna þess að fyrir þessu eru engin rök. Þetta er í rauninni bara tilfærsla á peningum til atvinnuveitanda. Þetta ýtir kannski örlítið undir það að fólk á þessum aldri verði ráðið í ljósi þess að launatengdur kostnaður vinnuveitanda verður lægri. En þetta er ekki góð leið til að stuðla að því að fólk muni eiga betra ævikvöld. Ég held að þetta setji það vont fordæmi að það sé þess virði að fordæma 1. gr. þessa frumvarps.

Annað atriðið sem ég vildi koma inn á er festing á hlutfallinu í 15,5%. Þeir sem hafa verið að fylgjast með hafa séð að undanfarin ár hefur hlutfallið farið hækkandi og hefur farið hækkandi smám saman í marga áratugi. Það sem er áhugavert er að þetta er ekki tilviljun, þetta er ekki ófyrirsjáanlegt og þarf að halda áfram að öllu óbreyttu. Þannig er að lífeyrissjóðakerfið í heild sinni hljóðaði upp á 3.514 milljarða árið 2017. Ég valdi þetta ártal vegna þess að ég hafði það við hendina, ekki út af neinni annarri ástæðu. Fjórum árum síðar er lífeyrissjóðakerfið komið upp í 5.818 milljarða samkvæmt grein í Morgunblaðinu í gær, held ég að það hafi verið. Það jafngildir 16% hækkun á ári að jafnaði eða stækkun á lífeyrissjóðakerfinu eða 576 milljarða kr. á ári. Ef maður myndi líta á það þannig þá gæti maður sagt: Ókei, það þýðir, miðað við það að verg landsframleiðsla 2019 var upp á 2.966 milljarða kr., að u.þ.b. ein af hverjum 6 krónum sem verða til í samfélagi okkar endar í lífeyrissjóðakerfinu, þ.e. 5 krónur verða nýttar fyrir almenning í landinu í nútímanum, ein fer í fjárfestingar sem þurfa að skila töluverðri ávöxtun og það mun nýtast til að borga fyrir ævikvöld fólks. Þetta er í sjálfu sér bæði peningur sem nýtist núna í fjárfestingum en er að sama skapi peningur sem gæti verið annars staðar í kerfinu. Það að kerfið skuli aukast um u.þ.b. 16% á ári er frekar magnað. Að vísu er þetta ekki alveg línulegt heldur fer þetta vaxandi í svokölluðum veldisvexti. Því er mikilvægt fyrir Alþingi, og í það minnsta efnahags- og viðskiptanefnd, að ræða aðeins hvað felst í því að vera með kerfi sem er með innbyggðan veldisvöxt í sér.

Reyndar er lífeyrissjóðakerfið langt frá því að vera eina kerfið á Íslandi sem er með innbyggðan veldisvöxt í sér, meira að segja á heimsvísu eru mörg kerfi með slíkan innbyggðan veldisvöxt. Hann þarf í sjálfu sér ekki endilega að vera slæmur en það verður að vera skýrt hvað hann felur í sér. Stundum er talað um að það sé ákveðin lágmarksávöxtun eða ávöxtunarkrafa á lífeyrissjóðakerfið. Reyndar hafa lífeyrissjóðirnir talað um að þetta sé núvirðingarkrafa. Gott og vel, það má kalla þetta einhverjum öðrum nöfnum mín vegna, en hún er í það minnsta 3,5%. 3,5%, forseti, þýðir tvöföldun á 28 árum. Þessir 5.818 milljarðar sem við erum með í lífeyrissjóðakerfinu í dag verða árið 2050 í það minnsta 10.000, 11.000 eða 12.000 milljarða kr. virði á núgengi og þá á eftir að taka með í reikninginn ýmsa aðra þætti, verðbólgu og annað sem kemur inn í og ekki síst með hliðsjón af því, eins og kemur fram í þessu frumvarpi, að það er verðtryggingarkrafa á lífeyrissparnað.

Þarna erum við að tala um að lífeyrissjóðakerfið í eðli sínu verður að taka sífellt stærri part af hagkerfi Íslands til sín. Og jú, ókei, það er ekki bara þannig að þessir peningar fari í einhverja hít. Þeir fara út úr lífeyrissjóðakerfinu í ýmsar fjárfestingar, bæði innan lands og utan, og eru í sjálfu sér mjög stór og mikilvægur partur af hagkerfi Íslands. En með þessari hækkun úr 12% í 15,5% er í rauninni verið að segja að ein af hverjum 7 krónum landsmanna skuli fara í sjóði þar sem annað fólk en landsmenn sjálfir og launamenn sjálfir og þeir sem eiga þennan lífeyrissparnað fær að ráðstafa þessum fjármunum í fjárfestingar hér og þar um hagkerfið. Það er vissulega í góðum tilgangi en maður hlýtur á einhverjum tímapunkti að spyrja sig: Hvenær er nóg nóg?

Svarið við þeirri spurningu fer svolítið eftir því hvort horft er á þetta lífeyrissjóðakerfisins megin eða launamannsins megin. Lífeyrissjóðakerfið þarf alltaf að stækka. Ef það nær ekki að stækka í réttu hlutfalli við öldrun þjóðarinnar, fjölgun þjóðarinnar og fleiri þátta þá er til fyrirbæri sem er kallað tryggingafræðilegt gjaldþrot sem er raunhæfur möguleiki. Það er það raunhæfur möguleiki að mjög reglulega kemur upp í umræðunni að það vanti svo og svo mörg hundruð milljarða í lífeyrissjóðakerfið til að það gangi upp. Árið 2016 var eitt af því fyrsta sem gerðist, árið sem ég kom inn á þing, að settir voru töluvert miklir peningar inn í B-deild LSR vegna þess að þar var horft fram á tryggingafræðilegt gjaldþrot í einhverjum skilningi, alla vega einhvern tímann í framtíðinni. Tryggingafræðilegt gjaldþrot er ekki í nútímanum, heldur er það framreiknað út frá kröfum sem eru til staðar til framtíðar. Það er hætt við því, þegar horft er á þetta þeim megin frá, að í raun sé hægt að réttlæta hvaða vöxt sem vera skal.

Ef maður samþykkir þá nálgun þá verðum við að fallast á það að hagkerfið fer að lokum eingöngu í það að þjóna hagsmunum lífeyrissjóðanna. Ég held að það sé bara ekki gott fyrir neinn. Það er því ástæða fyrir okkur á þingi, hvort sem er almennt eða í efnahags- og viðskiptanefnd sér í lagi, að við tökum umræðuna um það hvernig við getum látið lífeyrissjóðakerfið ganga upp. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það í ræðu sinni áðan að sjálfbærni væri mikilvægt markmið og ég er algjörlega sammála því. En sjálfbærni og endalaus veldisvöxtur er ekki eitthvað sem gengur upp saman. Þú getur ekki haft sjálfbærni og veldisvöxt, alla vega ekki til lengri tíma.

Þetta er eitthvað sem við verðum að ræða og við verðum að finna einhverja leið til að ná öllum tryggingafræðilegum markmiðum, öllum lífeyrismarkmiðum kerfisins, án þess að reiða okkur á það að éta alltaf sífellt stærri part af kökunni. Það er reyndar ein önnur leið til að laga þetta, þ.e. að hagkerfið stækki mun örar en lífeyrisþörfin. Það má alveg skoða hvernig við gætum gert það. En það er meira svona atvinnuveganefndarmál og kannski heildstæðara hagstjórnarmál.

En horfum líka á þetta hinum megin frá, frá sjónarhorni launamannsins. Þar til fyrir nokkrum árum var hlutfallstalan 12%. Þetta kemur að vísu frá mótframlagi launagreiðenda. Þessi tala er alla vega alltaf að hækka og á einhverjum tímapunkti þá fer það að rýra möguleika launafólks á því að fá aðrar kjarabætur, t.d. á sín venjulegu laun sem það fær útborgað. Það hlýtur líka að vera vandamál, sama hvorum megin maður horfir á þetta, að lífeyrissjóðakerfið er búið að vera að stækka og stækka frá því að það varð til. Fyrir nokkrum árum lagði ég fram þingsályktunartillögu, sem ég ætti sennilega að leggja fram aftur til að minna á hana, sem gekk út á það að skoða hvort einhver ábati væri í því að breyta lífeyrissjóðakerfinu úr söfnunarkerfi sem það er í dag yfir í gegnumstreymiskerfi að einhverju leyti. Það er ein leið til að minnka þennan þrýsting. Það eru alveg rök fyrir því að gera það ekki og ég hef heyrt þau rök og allt í lagi með það, en það þarf að rannsaka þetta mun nánar en ég get gert við að útbúa einhvers konar tillögu. Það þarf eiginlega að gera það sem fyrst vegna þess að kerfið heldur áfram að stækka á meðan að við erum að ræða þetta.

Að þessu sögðu, af því að tíminn er naumur, þá skil ég af hverju þetta frumvarp er lagt fram. Ég er ekki viss um að ég sé sammála öllu sem kemur fram í því. Margt getur verið gott í því og bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið hafa góða punkta í sínum kröfum hvað það varðar. En ef við ætlum að viðhalda sjálfbærni til framtíðar verðum við með einhverju móti að passa upp á að þetta kerfi gangi upp. Það felur í sér að við ættum sem allra fyrst að fara að tala um það hvernig við getum hætt að gera svona reddingar á kerfinu eins og í þessu máli. Síðan á eftir að eiga sér stað mikið samtal í efnahags- og viðskiptanefnd um nákvæmlega hverjar af tillögunum í þessu frumvarpi eru jákvæðar sem tímabundin lausn, jákvæðar almennt og hverjar eru neikvæðar. Það var reyndar ágæt ræða hér áðan hjá hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þar sem hann fór nokkuð vel yfir hvað væri ekki jákvætt í þessu og ég held að það sé ágætisveganesti inn í efnahags- og viðskiptanefnd með þetta. En í öllu falli: Við þurfum að endurskoða þetta og ég held að við verðum að gera það.