151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[18:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur, alveg rétt. Ræðan sem ég hefði getað haldið hefði verið um að fjárfestingargetu lífeyrissjóðakerfisins fylgir ótrúlega mikið vald yfir íslensku hagkerfi. Það væri alveg fín ræða út af fyrir sig, vegna þess að ef við horfum á tölurnar í Morgunblaðsgreininni þá hefur lífeyrissjóðakerfið vaxið um 1.000 milljarða kr. á síðustu 18 mánuðum. Þar af uxu erlendu eignirnar um 558,4 milljarða en innlendu eignirnar uxu um 449 milljarða. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þarna eru 449 milljarðar af verðmætum sem urðu til í íslensku hagkerfi á síðustu 18 mánuðum sem fara í rauninni ekki til almennings með neinum hætti fyrr en einhvern tímann seint og síðar meir, einhverjum áratugum síðar, eins og hv. þingmaður talaði um. Þannig að mér finnst áhugavert að þegar um er að ræða þetta stóran aðila, og höfum í huga að verg landsframleiðsla 2019 var, eins og ég nefndi áðan, 2.966 milljarðar kr., að lífeyrissjóðakerfið er í rauninni eins og tvöföld íslensk verg landsframleiðsla. Það felur í sér að ef lífeyrissjóðirnir ákveða að hafa áhrif hér og þar, sem þeir hafa kannski takmarkaða getu til vegna þess að ávöxtunarkrafan er rík, geta þeir farið að velja hverjir eru sigurvegarar í íslensku samfélagi og hverjir eru taparar. Það er vald. Það er raunverulegt vald og það má ræða það alveg sérstaklega. En ég vildi samt leggja meiri áherslu á kerfislægu áhættuna við það að hafa veldisvöxtinn innbyggðan.