151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

690. mál
[19:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017. Frumvarpið felur í sér tvenns konar breytingar á lögunum. Annars vegar er lagt til að bætt verði við þau ákvæðum er snúa að skilgreiningu á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum og eftirliti með slíkum flutningum. Hins vegar eru lögð til ný úrræði til eftirlits með greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum til að opna fyrir og styðja við skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda með það að markmiði að efla þjónustu við notendur. Þar sem þessar breytingar eru til komnar af tvennu ólíku tilefni mun ég fjalla um þær í sitt hvoru lagi.

Fyrst ber að nefna tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum, skilgreindir sem óreglubundnir farþegaflutningar á vegum innan lands gegn gjaldi sem flutningafyrirtæki starfrækir tímabundið í gistiaðildarríki og er sérhverju flutningafyrirtæki með bandalagsleyfi og staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins heimilt að stunda tímabundna gestaflutninga hér á landi í nánar tilgreindum tilvikum. Hvergi er þó að finna nánari skilgreiningu á því hvað geti talist „tímabundnir“ gestaflutningar og vegna þessa hefur skort lagalegan grundvöll til að framfylgja því að umræddir flutningar séu í reynd tímabundnir en ekki viðvarandi. Erlend flutningafyrirtæki hafa stundað slíka gestaflutninga hér á landi með ferðamenn á grundvelli heimildarinnar en þessi óskýrleiki hefur haft í för með sér að annars vegar hefur verið vandkvæðum bundið að hafa eftirlit með því hvort í raun sé um tímabundna flutninga að ræða og þá hefur orðið til ákveðinn freistnivandi erlendra fyrirtækja til að starfrækja flutninga til lengri tíma á grundvelli heimildar til tímabundinna flutninga sem skaðar samkeppnisstöðu innlendra hópbifreiðafyrirtækja. Því legg ég til með þessu frumvarpi að við lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi verði bætt skilgreiningu á tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum.

Skilgreiningin sem lögð er til er efnislega í samræmi við skilgreiningu framangreindra Evrópureglna en að auki er skilgreint með skýrum hætti hversu lengi flutningar megi fara fram án þess að þeir teljist viðvarandi. Er þar miðað við allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði. Byggja þau tímamörk á því að gestaflutningar innan þeirra geti talist tímabundnir í skilningi reglugerðarinnar en þau séu jafnframt málefnaleg gagnvart flutningsaðilum sem stunda þessa gestaflutninga þar sem tíu dagar eiga að nægja til ferða með hóp ferðamanna um landið.

Þá eru jafnframt lagðar til breytingar sem gera kleift að viðhafa virkt eftirlit með flutningunum og beita þá aðila viðurlögum sem brjóta gegn ákvæðum laganna um slíka flutninga.

Mun ég nú fjalla um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér og varða skilvirkari lausnir við greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum. Markmið þessara breytinga er að efla þjónustu við notendur almenningssamgangna án þess að því fylgi verulegt tekjutap flytjenda. Kallar það á lögfestingu tiltekinna grundvallaratriða er varða skyldur farþega og heimildir flytjenda á þessu sviði. Snúa þau að skyldu farþega til að framvísa gildum farmiða eða sýna á annan hátt fram á greiðslu fargjalds sem og rétt flytjanda til að sannreyna að fargjald hafi verið greitt. Þá þarf einnig heimild til þess að krefja þá farþega um vanræksluálag sem ekki geta sýnt fram á greiðslu rétts fargjalds sem og ákvæði um endurskoðun slíkra ákvarðana Lagt er því til að við lögin verði bætt heimild flytjenda í almenningssamgöngum til að kanna hvort farþegar hafi greitt rétt fargjald og um skyldu farþega til að sýna fram á greiðslu með viðunandi hætti. Geti farþegi ekki gert það verður flytjanda heimilt að krefja hann um vanræksluálag sem tekur hlutfallslegt mið af því fargjaldi sem farþega hefði borið að greiða fyrir farið. Með þessu verður flytjendum í almenningssamgöngum gert kleift að hleypa farþegum inn í vagna um fleiri en einar dyr þar sem vagnstjóri mun ekki þurfa að hafa eftirlit með því að allir farþegar hafi greitt fargjald. Þess í stað munu eftirlitsmenn flytjenda geta kannað greiðslu fargjalds hjá slembiúrtaki farþega og krafið þá um vanræksluálag sem ekki geta sýnt fram á greiðslu. Telji farþegi að ákvörðun um að krefja hann um vanræksluálag byggi á óréttmætum grunni getur hann óskað eftir endurskoðun flytjanda á ákvörðuninni sem síðan má kæra til Samgöngustofu. Þetta kerfi, sem tíðkast víðast hvar í nágrannalöndum okkar, er til þess fallið að gera greiðsluferli skilvirkara, opna á nýjar leiðir við greiðslu fargjalda og stytta þann tíma sem almenningsvagnar standa hreyfingarlausir við biðstöðvar.

Virðulegi forseti. Ég tel að þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til séu mikilvægar til að skýra regluverk um tímabundna gestaflutninga sem flutningsaðilar staðsettir í öðrum EES-ríkjum stunda hér á landi. Þá eru þær til þess fallnar að greiða fyrir skilvirkari lausnum í greiðslu fargjalda í almenningssamgöngum.

Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og vísa að öðru leyti til frumvarpsins sjálfs og greinargerðar sem því fylgir. Þá legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.