151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

Vísinda- og nýsköpunarráð.

703. mál
[20:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð. Frumvarpið er samið í samstarfi forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Verði það samþykkt er því ætlað að koma í stað laga um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Frá því að þau lög voru samþykkt hafa miklar breytingar orðið á málaflokki vísinda, tækni og nýsköpunar, en yfirstjórn málaflokksins og hlutverk ráðsins hafa staðið óbreytt. Á þessu tímabili hafa ítrekað komið fram ábendingar í erlendum og innlendum úttektum á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu um að endurskoðun sé nauðsynleg og breytinga þörf.

Frumvarpið er byggt á vinnu verkefnishóps sem skipaður var undir lok árs 2018 til að endurskoða lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs og var það Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar og fyrrum formaður vísindanefndar, sem veitti honum forstöðu. Hópurinn skilaði niðurstöðum sínum í ágúst 2020 í skýrslu þar sem fjallað var um stöðu mála hérlendis, greint frá fyrirkomulagi í samanburðarlöndum og settar fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag yfirstjórnar vísinda-, tækni- og nýsköpunarmála.

Herra forseti. Markmið laga þessara er að efla vísindastarf, tækniþróun og nýsköpun hér á landi svo styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks efnahags og atvinnulífs með því að efla stefnumótun og auka samhæfingu á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni. Veigamesta breytingin á núverandi fyrirkomulagi sem lögð er til í frumvarpinu er aðskilnaður ráðgefandi hlutverks og stefnumótandi hlutverk ráðsins. Þannig verði annars vegar starfandi ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og hins vegar sjálfstætt faglegt Vísinda- og nýsköpunarráð sem verði ráðgefandi. Þessi niðurstaða byggist á vandlegri skoðun og skipulagi í samanburðarlöndum og öðrum OECD-ríkjum. Þá er lagt til að innan ráðuneytis starfi sjálfstæðir sérfræðingar á sviði greiningar, mats og úttekta á þessu sviði sem styðji starfsemi beggja og styrkir þann grunn stefnumótunar.

Samkvæmt gildandi lögum er Vísinda- og tækniráð stefnumótandi en hefur í raun fremur gegnt ráðgefandi hlutverki. Stefnumótandi hlutverk ráðsins hefur ekki samræmst vel íslenskri stjórnskipan og hefðum þar sem ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins hver á sínu málefnasviði. Ráðherrar eru ekki lagalega bundnir af stefnu ráðsins, jafnvel þó að þeir sitji í ráðinu og samþykki stefnuna, og því hefur borið á því að þær væntingar sem stefnan hefur gefið hafi ekki verið uppfylltar. Það er undir ráðherrunum sjálfum komið að hve miklu leyti þeir nýta sér vettvang ráðsins og fagþekkingu starfsnefnda þess þegar þeir móta stefnu í sínum málaflokkum. Fjármögnun verkefna eða forgangsröðun er enn fremur á könnu hvers ráðuneytis fyrir sig. Framgangur stefnu ráðsins byggist fyrst og fremst á því hvort þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á tilteknum verkum og fjármögnun þeirra sjái til þess að verkefnunum verði hrint í framkvæmd. Það er því afar mikilvægt að tryggja eignarhald ráðherranna á stefnunni við mótun hennar. Óskýrt hlutverk ráðsins hefur gert það að verkum að stefnan hefur á köflum vakið væntingar sem ráðið hefur ekki alltaf getað staðið undir. Þessi staða hefur jafnvel haft vantraust í för með sér, einkum þegar einstök stefnumarkmið, svo sem aukin fjármögnun sjóða, ná ekki fram að ganga.

Það var mikilvægt markmið við setningu laga nr. 2/2003 að efla tengsl stefnu um vísindi og nýsköpun við aðra stefnumótun ríkisstjórnarinnar, t.d. á sviði efnahags-, atvinnu- og menntamála. Í erlendum úttektum á ráðinu hefur verið bent á að pólitísk áhrif Vísinda- og tækniráðs á stefnu efnahags- og atvinnumála hafi verið fremur lítil.

Tillaga þessa frumvarps um tvískiptingu verksviðs Vísinda- og tækniráðs er svar við þeim vanda sem hér hefur verið lýst, þ.e. að í stað núverandi fyrirkomulags komi ný og lögbundin ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun með skýrt stefnumótandi hlutverk og Vísinda- og nýsköpunarráð sem sinni ráðgefandi hlutverki sem byggist á traustum greiningum.

Lagt er til að ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun gefi reglulega út framtíðarsýn í málefnum vísinda, nýsköpunar og tækni til tíu ára og er fordæmi um slíkt sótt til sambærilegs ráðs í Finnlandi og til svipaðrar stefnu fyrir háskóla og vísindi í Noregi. Nefndin gefi einnig út stefnu og aðgerðaáætlun með mælanlegum markmiðum til skemmri tíma.

Lagt er til að Vísinda- og nýsköpunarráð verði skipað af forsætisráðherra til fjögurra ára í senn. Í því sitji níu fulltrúar með afburðaþekkingu og reynslu, jafnt af innlendum vettvangi sem erlendum. Ráðið yrði fámennara en nú er og skipað til lengri tíma. Ekki yrði það lengur tengt tilnefningum hagsmunaaðila eða einstakra stofnana heldur yrði tilnefningarnefnd falið að tilnefna fulltrúa í ráðið. Ráðið yrði stutt af faglegu starfi sjálfstæðra sérfræðinga innan ráðuneytisins og væri því sjálfstæðara í störfum en núverandi ráð, frjálsara til breiðari upplýsingamiðlunar til þings og þjóðar og styrkara í sínu ráðgefandi hlutverki.

Áhersla er lögð á að ráðið verði vel skipað. Í núverandi kerfi er það þannig að forsætisráðherra skipar alla aðra fulltrúa en ráðherra í Vísinda- og tækniráð, en gerir það samkvæmt tilnefningum annarra ráðherra og hagsmunaaðila. Vandinn við þetta fyrirkomulag er að það gerir forsætisráðherra á hverjum tíma erfitt um vik að horfa til heildarsamsetningar ráðsins með tilliti til ólíkrar þekkingar og reynslu og það skapar hættu á að stór hluti tilnefningaraðila leggi til fólk með svipaðan bakgrunn.

Ég hef setið í tveimur Vísinda- og tækniráðum og þar hafa yfirleitt alveg afbragðs sterkir einstaklingar en þetta fyrirkomulag við skipan getur hins vegar leitt til ákveðins ójafnvægis sem snýr að þekkingu og reynslu þegar litið er til samsetningar hópsins.

Til að efla heildarhugsun við skipun ráðsins er lagt til að í stað þess að margir tilnefni í ráðið leggi sérstök tilnefningarnefnd fram tillögu til forsætisráðherra um skipan ráðsins. Þar verði þrír aðilar, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu frá fulltrúum fyrirtækja og einn án tilnefningar. Þessi nefnd vinni í samráði við ráðuneyti og hagaðila og óski eftir tillögum að fulltrúum í ráðið. Á grundvelli samráðs gerir hún tillögu að ráði með hliðsjón af samsetningu þess með það að markmiði að í því sitji fulltrúar með fjölbreytta reynslu og þekkingu á vísindum, tækni og nýsköpun og opinberri stefnumótun, bæði af innlendum og erlendum vettvangi.

Ég man að þegar ákveðið var á sínum tíma að stofna gæðaráð háskóla, sem ég tel raunar að hafi verið mjög mikilvægt skref í mati á háskólastarfi á Íslandi, var það gert með þeim hætti að sóttir voru til að mynda erlendir aðilar til að vinna gæðamat á háskólastofnunum á Íslandi. Ég er algjörlega sannfærð um að það ráð hefur skilað alveg gríðarlegum breytingum á háskólastarfi í landinu og hefur einmitt skapað mikilvægt samtal háskóla við erlenda sérfræðinga um hvernig við getum gert betur í háskólastarfi og hvaða leiðir eru til úrbóta.

Annað dæmi sem ég gæti nefnt um mikilvægi þess að hugsa með þessum breiða hætti er að þegar núverandi löggjöf um Ríkisútvarpið var samþykkt árið 2013 var lagt til að það yrði tilnefningarnefnd sem tilnefndi í stjórn Ríkisútvarpsins til að tryggja slíka breidd. Því var nú reyndar breytt og þingið hélt áfram að kjósa. Að sjálfsögðu hafa báðar aðferðir sína kosti og sína galla, en mjög víða, t.d. á Norðurlöndum, er þessi aðferðafræði nýtt til þess að vinna gegn einsleitni þegar um er að ræða faglegar stofnanir.

Herra forseti. Gert er ráð fyrir því að Vísinda- og nýsköpunarráð fundi með ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun a.m.k. einu sinni til tvisvar á ári. Hlutverk ráðsins er þá að veita ráðherranefnd ráðgjöf um stefnumótun á sviði vísinda og nýsköpunar og vekja athygli á mikilvægum málum. Ráðið skal veita nefndinni endurgjöf með því að fjalla um stefnu hennar og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, nýsköpunar og tækni. Ráðið skal stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu um vísindi, tækni og nýsköpun, stöðu greinanna og mikilvægi fyrir íslenskt samfélag með skýrslum og opnum fundum. Þá er gert ráð fyrir að Vísinda- og nýsköpunarráð skili árlega skýrslu til ráðherra þar sem fjallað verði um stöðu málaflokksins hér á landi í alþjóðlegu tilliti um stefnumótun stjórnvalda, framfylgd stefnunnar og helstu samfélagslegar áskoranir.

Það er umhugsunarefni að við réðumst fyrst í það á þessu kjörtímabili að ráðast í að skilgreina samfélagslegar áskoranir sem taka þyrfti á innan vísindasamfélagsins. Unnin var töluvert mikil vinna í því verkefni að greina þær samfélagslegu áskoranir. Hluti af því ferli var að efna til opins samráðs, almenningsamráðs, þar sem fólki gafst kostur á að segja hvað það teldi mikilvægast að stjórnvöld beindu kröftum í. Þar komu loftslagsmálin fremst. Síðan voru það heilbrigðisvísindi og heilbrigðistækni og að lokum tæknibreytingar, það sem við köllum gjarnan fjórðu iðnbyltinguna. Þetta voru þær þrjár samfélagslegu áskoranir sem stjórnvöld skilgreindu. Um þessar áskoranir snýst ný markáætlun og ég sé fyrir mér að stjórnvöld muni, að fengnum ráðleggingum þessarar nefndar, leggja línurnar hvað varðar til að mynda markáætlanir framtíðar með þessum hætti í samráði við þessa nefnd. Þótt stærstur hluti rannsóknarstarfsins verði áfram í samkeppnissjóðum þar sem gæðin eru í raun og veru eini mælikvarðinn á þetta, þá gefst þarna tækifæri á að leggja aukna vigt á tilteknar samfélagslegar áskoranir. Ég held að það væri líka mjög spennandi að efla slíkt samtal hér inni á Alþingi því að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að skýrslan verði lögð fram á Alþingi. Þar drögum við líka fyrirmyndir frá nágrannalöndum okkar.

Lagt er til að nafn ráðsins verði Vísinda- og nýsköpunarráð fremur en Vísinda- og tækniráð. Ég held að það sé bara í takt við breytta hugtakanotkun á undanförnum 20 árum þar sem hugtakið nýsköpun hefur víða komið í stað hugtaksins tækniþróun. Hugtakið nýsköpun er víðara en tækniþróun enda tekur það til þeirrar nýsköpunar sem ekki felur bara í sér þróun tækni.

Herra forseti. Við endurskoðun laganna var haft víðtækt samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila. Efni frumvarpsins hefur tvívegis verið birt í samráðsgáttinni. Fyrst voru birtar niðurstöður verkefnahópsins haustið 2020 og drög að frumvarpi voru svo birt í mars 2021.

Gert er ráð fyrir að útgjöld muni aukast um u.þ.b. 20 millj. kr. á ári þar sem gert er ráð fyrir tveimur sérfræðingum í stað eins í ráðuneytinu til að styðja betur við starf ráðherranefndar og Vísinda- og nýsköpunarráðs. Núverandi útgjöld eru um 18–22 millj. kr. á ári sem falla á þrjú ráðuneyti. Nú er gert ráð fyrir um 40 millj. kr. á ári auk 3 millj. kr. stofnkostnaður á fyrsta ári. Ekki er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu en ég vil minna á að útgjöld til bæði rannsókna og nýsköpunar hafa aukist stórum á undanförnum árum þannig að ég lít svo á að þessar 20 milljónir séu dropi í hafið í þeim milljarðaútgjöldum og um það hefur ríkt skilningur á milli þeirra þriggja ráðuneyta sem hafa annast þennan kostnað, þ.e. forsætisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis, að þessu sé hægt að forgangsraða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr. að þeirri meðferð lokinni.