151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar .

704. mál
[20:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég get ekki annað en fagnað því að þetta frumvarp sé komið fram. Þó að ég hafi ekki rýnt það eða lúslesið þá sýnist mér þó að þarna sé ýmislegt að finna sem er til bóta og gerir Fiskistofu betur kleift að sinna sínu mikilvæga eftirlitshlutverki.

Ég tek hins vegar eftir því, herra forseti, að breytingin á 13. gr. laga um stjórn fiskveiða er ekki sú hin sama og lagt var til af verkefnisstjórn sem skilaði tillögum sínum rétt í byrjun árs 2020, ef ég man rétt, um það hvernig best væri að haga skilgreiningu á tengdum aðilum. Ég vil biðja hæstv. sjávarútvegsráðherra að rifja það líka upp með mér hvernig tillagan var um breytingu á 13. gr. laganna í frumvarpinu sem fór í samráðsgátt í fyrra. Ef ég hef tekið rétt eftir er tillagan um breytingu á greininni eins og hún er í því frumvarpi sem við ræðum hér önnur en var í frumvarpinu sem var í samráðsgátt. Getur hæstv. ráðherra rifjað þetta upp fyrir mér og útskýrt af hverju greinin hljóðar eins og hún hljóðar í því frumvarpi sem við ræðum hér.