151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar .

704. mál
[20:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurt er hvort ég telji að núverandi lagaumhverfi gangi upp. Já, ég tel að það gangi upp. Þar eru inni hámörk sem hafa í rauninni alla tíð verið umdeild frá því að þau voru sett. Vandinn sem við vorum að glíma við í þeirri vinnu sem leiðir til þess frumvarps sem hér er lagt fram, er af því að eftirlitsstofnun okkar, Fiskistofa, taldi sig ekki hafa nægilega skýrar skilgreiningar á því með hvaða hætti hún ætti að vinna til að halda utan um það að fyrirtækin virtu ákvæði laganna. Það er það sem við erum að reyna að skýra hérna. Í gegnum þessa vinnu höfum við átt mjög náið og gott samstarf við þá sem starfa við þessi mál, bæði Fiskistofu, eftirlitið, hagaðila og Samkeppniseftirlitið. Við sjáum það m.a. á þeim umsögnum sem komu á samráðsgáttinni að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru taldar til mikilla bóta. Það er hins vegar allt önnur umræða sem er full ástæða til að taka hvort við eigum að vera með þessar prósentur og hlutdeildina í 12% þess vegna, eða lægri í krókaaflamarkskerfinu eða þá að það séu 49%. Við höfum verið að reyna að laga þann þátt málsins sem kom fram í úttekt Ríkisendurskoðunar að þeim reglum og viðmiðunum sem gilda á samkeppnismarkaði, við höfum verið að reyna að laga eftirlitið að því sem segir í 17. gr. þeirra laga. Ég tel að eins og frumvarpið er búið þá geti það að sjálfsögðu gengið upp. En ég tek hins vegar heils hugar undir það með hv. þingmanni að atvinnuveganefnd þarf að fara mjög vendilega yfir þau atriði sem hún gerði hér að umtalsefni.