151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[22:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Jafnframt er lagt til að hugtakinu kolefnishlutleysi verði bætt við orðskýringar laganna.

Síaukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hefur leitt til mikilla breytinga á liðnum áratugum og greinilegar breytingar má merkja á náttúrufari og samfélögum um allan heim. Mikilvægt er að bregðast við og sporna við afleiðingum hnattrænnar hlýnunar. Ríki heims hafa mörg hver þegar sett fram markmið um kolefnishlutleysi og Ísland er eitt þeirra. Mikilvægt er að lögfesta markmiðið til að stefna stjórnvalda sé fest í sessi. Fleiri ríki hafa farið þessa leið og lögfest markmið um kolefnishlutleysi og má þar nefna Svíþjóð, Danmörk, Frakkland, Ungverjaland, Nýja-Sjáland og Bretland.

Markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 er sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og er mikilvæg stefnumótandi ákvörðun sem felst í því. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að leiðarljós loftslagsstefnu Íslands sé stefnumið Parísarsamningsins frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhitastigs andrúmslofts jarðar við 1,5°C. Til að ná markmiði Parísarsamningsins verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eins hratt og nokkur kostur er, m.a. með minni notkun jarðefnaeldsneytis en jafnframt á sama tíma að auka kolefnisbindingu eins og t.d. í jarðvegi og gróðri með endurheimt vistkerfa og skógrækt, niðurdælingu koldíoxíðs til varanlegrar geymslu í jarðlögum eða með öðrum viðurkenndum aðferðum. Minni ég þar á frumvarp mitt sem var samþykkt á Alþingi í mars hvað þetta varðar. Þannig þarf á hverjum tíma að myndast jafnvægi milli þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losna vegna mannlegra athafna annars vegar og upptöku kolefnis og bindingu þess í viðtaka hins vegar.

Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum sem gefin var út í júní 2020 með 48 aðgerðum og unnin í samvinnu fjölmargra hagaðila horfir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Með aðgerðaáætluninni er jafnframt lagður grunnur að því að markmið um kolefnishlutleysi náist árið 2040. Ör samdráttur í losun skiptir þar mestu máli en einnig að leggja grunn að aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti til að losun kolefnis frá landi verði í jafnvægi við það magn sem hægt er að binda.

Þegar er hafin umfangsmikil stefnumótunarvinna um leiðina að kolefnishlutleysi og er langtímaáætlun um takmarkaða losun gróðurhúsalofttegunda á grundvelli loftslagssamningsins áfangi á þeirri vegferð. Við þessa vinnu verður samtal, samráð og samvinna við almenning og hagaðila lykilatriði því að markmið um kolefnishlutlaust samfélag mun kalla á breytingar víða og samvinnu aðila.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða afar mikilvægt loftslagsmál sem undirstrikar áherslur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á þetta mikilvæga málefni. Með lögfestingu markmiðs um kolefnishlutleysi myndi Alþingi setja okkur Íslendinga á sama stað og aðrar þjóðir sem stigið hafa þetta skref og jafnframt setja mikilvægt fordæmi fyrir þær þjóðir sem ekki hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.