151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[23:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Á sama tíma og ég get tekið undir að 2040 sé svolítið langt í burtu þá er það í raun mjög nálægt okkur, sérstaklega í ljósi þess hve stórt verkefni það er að ná kolefnishlutleysi á þeim 20 árum sem við höfum til stefnu. Ég held að það sé jafnframt mjög mikilvægt að við horfum til þess að það er í síðasta lagi 2040 sem við þurfum að ná þessu að mínu mati og það að fara yfir í bindingu umfram kolefnishlutleysi er síðan næsta skref. Jú, að sjálfsögðu hefur það komið til umræðu að skoða hvort megi áfangaskipta þessu, þ.e. hvaða árangri sé mögulega hægt að ná árið 2025, 2030, 2035 o.s.frv. Við erum í stefnumótunarvinnu og erum með Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, auk sérfræðinga í Háskólanum í Reykjavík, til að hjálpa okkur við að átta okkur á því með hvaða móti við getum komist til 2040. Það kann að vera að í því komi einmitt fram, og sérstaklega í samráði við almenning og hagaðila, að við þurfum að skipta þessu meira upp. Þá ætti að vera einfaldara að átta sig á því hvað við erum að ná miklum samdrætti ef við getum miðað við árið 2030 — hvað er þá mikið sem vantar upp á kolefnishlutleysi? Í raun finnst mér vel koma til greina í útfærslunni og í stefnumótunarvinnunni, sem þarf að fara fram og fer fram, að skoða þessa þætti þó svo að það sé ekki endilega sett í lög hvaða áföngum sé náð í kolefnishlutleysi 2030 eða 2035. En í sjálfu sér væri kannski ekkert sem myndi útiloka það í framhaldinu.