151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[23:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ganga svo langt að segja að það sé nauðsynlegt að festa í lög áfangamarkmið fyrir árið 2030, ekki bara vegna þess að árið 2040 er langt í burtu í þeim skilningi að stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða sem skila árangri miklu fyrr heldur líka vegna þess að í markmiðsákvæði laga um loftslagsmál er eingöngu talað um að skapa eigi skilyrði til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Þær alþjóðlegu skuldbindingar eru fyrst og fremst þessa dagana Parísarsáttmálinn sem er einmitt með 2030 sem lykilártal. Í anda gagnsæis, í anda þess að umræðan geti verið skýr væri fullkomlega eðlilegt að festa í lög alla vega þá stiku á leiðinni til kolefnishlutleysis. En þá vandast málið náttúrlega. Þá þurfum við að fá að heyra og sjá frá ríkisstjórninni hver eru markmið íslenskra stjórnvalda innan sameiginlegs markmiðs Evrópusambandsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Þá dettur mér reyndar í hug, og er kannski að hugsa upphátt: Þarf að binda kolefnishlutleysið, eins og það er skilgreint hér, betur við losun af manna völdum innan Íslands svo að við séum ekki að búa til aðra regnhlíf til að fela okkur undir?