151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:55]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Í dag erum við að fjalla um áform atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Með frumvarpinu er fyrst og fremst verið að bregðast við þeirri ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og koma á fót Tæknisetri Íslands. Þar er alls ekki að finna sterka sýn á framtíð nýsköpunar á Íslandi. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar frá 2. umr. þá er í greinargerð frumvarpsins fjallað um þau markmið að efla opinberan stuðning við nýsköpun í landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Í markmiðsgrein frumvarpsins er lögð áhersla á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni, forgangsröðun verkefna, að draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem það er veitt í. Markmiðin eru sannarlega ágæt en því miður er ljóst að þetta frumvarp mun ekki ná þeim markmiðum.

Herra forseti. Í síðustu viku sendi maður að nafni Kristján Leósson bréf á alla þingmenn þar sem hann fjallar um stöðu málsins og mig langar, með leyfi forseta, að lesa aðeins úr bréfi hans, enda tel ég að innihaldið eigi erindi í þingsal og vona að allir þingmenn hafi nú þegar lesið það:

„Nýsköpunarmiðstöð hefur sinnt þjónustu, rannsóknum og hagnýtum rannsóknarverkefnum í samstarfi við einstaklinga og fyrirtæki, bæði sprotafyrirtæki og rótgróin fyrirtæki auk háskóla og annarra rannsóknastofnana hérlendis sem og erlendis. Stofnunin hefur starfað að byggingarrannsóknum, rannsóknum í jarð- og vegtækni, prófunum á byggingarvörum og rannsóknum í efnaverkfræði, efnistækni, líftækni og orkutækni, auk þess að bjóða aðstoð og starfsaðstöðu fyrir frumkvöðla á ofangreindum áherslusviðum. Stofnunin hefur einnig séð um rekstur almennra frumkvöðlasetra, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, og boðið takmarkaða en gjaldfrjálsa handleiðslu fyrir frumkvöðla á allra fyrstu stigum.

Stofnunin hefur haft yfir að ráða 6.500 m² sértryggðu rannsóknarhúsnæði á Keldnaholti sem er í eigu ríkisins, þar sem stofnunin og forverar hennar hafa verið til húsa síðastliðin 50 ár. Hluti þess húsnæðis var nýlega gerður upp fyrir tugi milljóna. Hluti húsnæðisins er leigður út til sprotafyrirtækja sem reiða sig á aðgang að tilraunastofum, rannsóknartækjum, verkstæðum og annarri sérhæfðri aðstöðu. Árlegt rekstrarframlag ríkisins til NMÍ í hefur numið um 700 millj. kr. og sértekjur stofnunarinnar af þjónusturannsóknum og innlendum og erlendum rannsóknarstyrkjum hafa numið sambærilegri upphæð undanfarin ár. Í upphafi árs 2020 störfuðu hjá stofnuninni 81 starfsmaður í 73 stöðugildum. Um 20 þessara starfsmanna sinntu beinum stuðningi við frumkvöðla, samskiptum við skólakerfið, stafrænum smiðjum og tengdum hlutum. Af þeim voru sex stöðugildi utan höfuðborgarsvæðisins.“

Herra forseti. Opið var fyrir umsagnir í samráðsgátt í tíu daga og bárust 45 umsagnir frá 39 aðilum, þar á meðal einstaklingum, háskólum, stofnunum, sveitarfélögum og hagsmunaaðilum. Um tveir þriðju af umsagnaraðilum voru neikvæðir í garð frumvarpsins og lögðu fram alvarlegar athugasemdir við efni og innihald. Nokkrar umsagnir voru mjög afdráttarlausar og í umsögn frá samtökunum Space Iceland er frumvarpið sagt illa unnið, í andstöðu við eigin yfirlýst markmið, tímarammi breytinga sé of stuttur og vandamálin sem ætlað sé að leysa séu ekki í tengslum við boðaðar aðgerðir, auk þess sem skortur á greiningum og samráði í ferlinu er harðlega gagnrýndur.

Bæði 1. og 2. minni hluti atvinnuveganefndar voru einnig afdráttarlausir í andstöðu sinni í álitum sínum við 2. umr. og í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram, með leyfi forseta:

„Í breytingartillögu meiri hlutans eru lagðar til nokkrar nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu. 1. minni hluti tekur undir þær breytingartillögur en í ljósi þess hversu illa var staðið að málinu strax í byrjun og hversu vanreifað það var af hálfu ráðuneytisins er ljóst að ekki er hægt að styðja málið. Enn er tilefni lagasetningarinnar óskýrt og greiningarvinna sem leggja hefði átt til grundvallar breytingum vanreifuð eða ekki til staðar. Þá er tímarammi breytingaferilsins of stuttur og stofnunin lögð niður án þess að búið sé að móta þá ferla sem eiga að taka við veigamiklum verkefnum stofnunarinnar.

Það er sannfæring 1. minni hluta að ástæða sé til að fresta frekari umfjöllun um málið og undirbúa það betur. Þá er þessi tímapunktur sérstaklega óheppilegur til að vera með óvissu í kerfinu enda sjaldan verið jafn mikil þörf fyrir stuðning við nýsköpun og frumkvöðlastarf í landinu og nú. 1. minni hluti átelur í því samhengi hversu langt ráðuneytið hefur gengið í að leggja stofnunina niður áður en vilji og samþykkt þingsins liggur fyrir sem gerir það að verkum að erfitt er að taka skref til baka, hverfa frá ákvörðuninni og hefja vegferðina á réttum byrjunarreit.

Undanfarna áratugi hefur mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og sóknar á alþjóðlega markaði sífellt aukist. Þrátt fyrir aukna áherslu á alþjóðlega samkeppnishæfni landsins er staðreyndin samt sem áður sú að samkeppnishæfni Íslands hefur dalað í alþjóðlegum samanburði. Eins og fram kemur í umsögn Kristjáns Leóssonar um málið var Ísland í 13. sæti á lista Global Innovation Index á árunum 2015–2017 en á árunum 2018–2020 hefur það setið í 20.–23. sæti. Þetta er á sama tímabili og stöðugur árlegur hagvöxtur hefur verið 2–7%. Kristján bendir einnig á að meðal helstu styrkleika Íslands síðustu árin hefur talist fjöldi birtra vísindagreina og hlutfall rannsókna sem styrktar eru með erlendu fjármagni, en meðal helstu veikleika hefur hins vegar verið lágt hlutfall há- og millitæknivarnings í innlendri framleiðslu og útflutningi. Að auki stendur landið mjög neðarlega varðandi fjölda útskrifaðra háskólanema úr vísinda- og tæknigreinum en þar hefur lítið þokast áfram þrátt fyrir nokkur átaksverkefni stjórnvalda á síðustu árum. Þá kom fram í McKinsey-skýrslunni í kjölfar efnahagshrunsins 2008 að mikilvægt væri að byggja nær eingöngu á nýjum útflutningreinum.

Þá má ekki gleyma því að alþjóðleg samvinna og samstarf á vettvangi hins opinbera er ekki síður mikilvæg fyrir alþjóðlega samkeppnishæfni landsins, og til þess að taka þátt í því starfi þarf að vera þekking og mannauður hjá hinu opinbera sem vinnur að stuðningi við vistkerfi nýsköpunar og hefur tækifæri til að vinna að slíkum alþjóðlegum samstarfsverkefnum.

Mikilvægi þess að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun er óumdeilt og hefur á undanförnum árum nokkuð verið bætt í framlög til þeirra málaflokka. Hins vegar kemur ýmislegt í ljós þegar rýnt er í tölurnar, eins og fram kemur í umsögn Kristjáns Leóssonar, en hækkunin kom fyrst og fremst til vegna hækkunar á hlut fyrirtækja á meðan framlög til rannsókna og þróunar í háskólum og opinberum stofnunum hafa dregist saman, einkum hjá opinberum stofnunum. Sýnt hefur verið fram á í erlendum rannsóknum að skýr tengsl eru á milli fjárfestinga hins opinbera og einkageirans í rannsóknum og þróunarstarfi, þ.e. að með því að auka eigið framlag til háskóla og opinberra rannsóknastofnana hvetur ríkið til frekari umsvifa í einkageiranum.

Nú er mikil áhersla lögð á að nýta nýsköpun sem leið út úr þeirri kreppu sem við stöndum frammi fyrir og því ljóst að nú er ekki ástæða til að draga úr stuðningi við alþjóðlega samvinnu og á sviði nýsköpunar og tækniþróunar. Þvert á móti væri skynsamlegra að styrkja enn frekar aðgerðir til stuðnings vistkerfis nýsköpunar og leggja áherslu á aðkomu ríkisins að því að brúa bil milli rannsókna og markaðar. Samhliða væri ástæða til að efla þær stofnanir hins opinbera sem sinna tæknirannsóknum, þjónusta atvinnulífið og sinna margs konar eftirliti.“

Frumvarpið, sem á að vera um opinberan stuðning við nýsköpun, fjallar í raun aðeins um það verkefni hvernig leggja á Nýsköpunarmiðstöð niður og setja á fót Tæknisetur. Tækifærið er ekki nýtt í að ræða hvernig opinberum stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf verði háttað. Í frumvarpinu vantar sýn á hvert hlutverk ríkisins eigi að vera og hvernig þjónustu við mikilvæga aðila í vistkerfi nýsköpunar sé best háttað. Það vantar alfarið útfærslur á mikilvægri þjónustu, t.d. við landsbyggðir, frumkvöðla á fyrstu stigum og stuðning við alþjóðasókn, alþjóðlegt samstarf og fjölmargar aðrar áskoranir. Svo eru önnur brýn verkefni á sviði loftslagsbreytinga og annarrar áskoranna tengd Covid-19 faraldrinum.

Það er því þannig að breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu kalla á að ráðuneytið byggi upp gjaldfrjálsa þjónustu við frumkvöðla sem á að vera aðgengileg um allt land, og stafræna nýsköpunargátt sem Nýsköpunarmiðstöð hélt þegar utan um. Samkvæmt greinargerðinni með frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir samstarfi þvert á ráðuneyti varðandi nýsköpunarmenntun, að ráðuneytið styðji áfram við verkefni um samfélagslega nýsköpun, stuðning við hraðla og nýsköpunarkeppni um allt land og að ráðuneytið styðji áfram við námskeiðahald. Öllu ofannefndu sinnti NMÍ áður. Hvaða tilgangi þjónar að auka umsvif ráðuneytisins svo verulega á kostnað sérhæfðra stofnana?

Herra forseti. Margt er óljóst í frumvarpinu. Markmiðin eru óskýr og slitrótt. Það er í raun fátt í þessu frumvarpi sem einfaldar stuðning, bætir innviði, gerir ráð fyrir tækjakaupum eða eykur yfirsýn. Yfirbygging minnkar ekki heldur. Hún virðist vera að dreifast um alla stjórnsýslu, þekking tapast og kostnaður við lokunina eina er rúmar 300 milljónir. Frumvarpið skýrir aðkomu hins opinbera ekkert sérstaklega að nýsköpun. Nýsköpun er fjárfesting til framtíðar. Nýsköpun og stuðningur við frumkvöðla verður að vera skilgreindur í stoðkerfinu og sérstaklega úti á landsbyggðinni. Landsbyggðin situr á hakanum eins og svo oft áður og svar ráðherra til að mæta kvörtunum landsbyggðarinnar er stóra snuðið, nýsköpunarsjóðurinn Lóa. Hvers vegna að stofna enn einn sjóðinn þar sem litlu fé er útdeilt handahófskennt og alger vöntun er á áframhaldandi stuðningi?

Undanfarin ár hefur opinber stuðningur við nýsköpun — eða skortur á honum — verið harðlega gagnrýndur á Austurlandi og talið að þessi skortur á aðgengi að stuðningi við nýsköpun í landshlutanum hafi bókstaflega haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landshlutans að þessu leyti. Það hefði verið eðlilegt í ljósi þess að gert hefði verið ráð fyrir að koma á fót stöðugildi í þeim landshluta sömuleiðis en tækifærið er ekki nýtt til þess og í raun verið að draga úr stuðningi við nýsköpun á landsbyggðunum þrátt fyrir fögur orð og fullyrðingar um annað. Verið er að benda á þann augljósa möguleika að jafnvel hefði fjármagninu einfaldlega verið betur komið fyrir hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga sem hluti af uppbyggingarsjóðum sóknaráætlana landshlutanna sem hafa það hlutverk að úthluta styrkjum til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar í stað þess að búa til enn einn sjóðinn sem frumkvöðlar þurfa að sækja í. Stofnun smásjóða hér og þar er engan veginn nægilega góð framtíðarsýn. Staðan er því einföld: Besta skrefið til úrbóta er að draga frumvarp ráðherra til baka og hefja endurskoðun á faglegri forsendum. Við í þingflokki Samfylkingarinnar munum ekki styðja þetta frumvarp og ég skora á stjórnarþingmenn að skoða málið betur og greiða atkvæði í samræmi við samvisku sína.