151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Við ræðum í senn tvö mál, annars vegar frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun og hins vegar um Tækniþróunarsjóð. Þetta eru eðli málsins samkvæmt mjög stór mál. Ef við lítum aftur til aðdraganda síðustu kosninga, alþingiskosninganna 2017, þá var nýsköpunin eitt af þeim málum sem bar mjög hátt í allri umræðu og vildu allir þá Lilju kveðið hafa, leyfi ég mér að segja. En við erum í þeirri stöðu að fjalla um frumvarp sem því miður verður að segjast eins og er að reyndist ófullburða.

Við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, fulltrúar Miðflokksins í atvinnuveganefnd, lögðum fram minnihlutaálit á fyrri stigum málsmeðferðar hér á hinu háa Alþingi. Þar á meðal bentum við á að markmiðslýsingin í 1. gr. frumvarpsins á sér nánast enga samsvörun í innihaldi frumvarpsins. Þetta var ítrekað bent á í umsögnum og af hálfu gesta á fundum hv. atvinnuveganefndar. Með hæfilegri einföldun má segja að virkar efnisgreinar frumvarpsins séu aðeins tvær. Það er annars vegar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hins vegar að veita ráðherra heimild til að stofna einkahlutafélag um starfsemi tækniseturs.

Í áliti okkar vísum við til Kristjáns Leóssonar sem lagði fram mjög ítarlega umsögn og kom sem gestur á fund nefndarinnar. Hann er þróunarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins DT Equipment ehf. og á sér langan feril að baki í fræðum og rannsóknum og nýsköpun. Í minnihlutaáliti okkar bentum við á athugasemdir hans sem lúta að því hversu öllum undirbúningi málsins virðist hafa verið áfátt og vísa ég til þess.

Það er áhyggjuefni að uppi skuli vera sú staða að miklar efasemdir séu um að með þessu máli sé nægilega stutt við nýsköpun á landsbyggðinni. Þá ber að geta þess að ekki er nægilega vel búið um hnúta varðandi mótun framtíðarstefnu um byggingarannsóknir. Það á ekki síst við í ljósi umtalsverðra samfélagslegra hagsmuna af grundvallarrannsóknum sem lúta að byggingum, vegagerð og fjölmörgum öðrum þáttum — ég þarf ekki einu sinni að nefna mygluna.

Þarna eru ýmis atriði sem verður að telja sérkennileg. Ekki hefur verið skýrt, leyfi ég mér að segja, í allri meðferð málsins af hverju kosið var að fela þeirri ágætu stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem ég skal síst halla orði á hér, umsjón með hinum nýja samkeppnissjóði um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Það er vægt orðað að segja að slík óvissa sýnist kannski ekki falla vel að verksviði þeirrar stofnunar sem eftirlitsstofnunar. Því hefur heldur ekki verið svarað af hverju þessi sjóður var ekki falinn Rannsóknamiðstöð Íslands, oftast kölluð Rannís, sem fer með sambærilega sjóði. Mikil óvissa ríkir um fjárhagslegar afleiðingar af þeim breytingum sem lagðar eru til og fjárhagsáætlanir hins nýja félags, sem kynntar hafa verið á fundum atvinnuveganefndar, eru ekki nema eins konar drög og afar ófullkomin sem slík, leyfi ég mér að segja.

Það er ógott til þess að hugsa hvernig staðið var að starfsmannamálum í tengslum við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar, en við meðferð málsins kom fram að starfsmenn töldu sig í óvissu um hvernig staðið yrði að því ferli. Stéttarfélög gerðu athugasemdir, skiluðu umsögnum og lögðu þar áherslu á mikilvægi þess að tryggja starfsöryggi sem flestra við tilfærslu þeirra verkefna sem Nýsköpunarmiðstöð hafði með höndum. Ég leyfi mér að segja það hér, eins og kemur fram í áliti okkar hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar, að breytingartillaga minni hlutans rennir stoðum undir að þessum þætti hafi ekki verið gefinn nægilegur gaumur við undirbúning frumvarpsins.

Þá vil ég segja að breytingartillögur meiri hluta hv. atvinnuveganefndar miða að því að bæta þetta ófullburða frumvarp. Við þingmenn Miðflokksins studdum þær í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. af þeirri ástæðu að þær eru fallnar til að bæta a.m.k. úr þeirri óvissu sem frumvarpið veldur. Upp úr stendur að stjórnvöldum hefur með frumvarpinu ekki tekist vel upp við að efla nýsköpun þegar kemur að nýsköpun með virkri þátttöku atvinnulífs og landsbyggðar við framtíðaruppbyggingu atvinnulífs í landinu. Við teljum að kröftug nýsköpun sé mikilvæg forsenda þess að reisa stoðir undir hagsæld landsmanna til framtíðar.

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á bréfi til þingmanna frá fyrrgreindum Kristjáni Leóssyni sem er dagsett 6. apríl síðastliðinn og var sent með tölvupósti 7. apríl. Yfirskriftin er: „Bréf til þingmanna vegna frumvarps til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.“ Ég ætla, með leyfi frú forseta, að vísa aðeins til niðurlagskafla. Þetta er bréf upp á sex þéttritaðar síður og niðurlagskaflinn ber yfirskriftina „Afleiðingarnar“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi verður niðurstaðan út á við sú að opinbera stofnunin Nýsköpunarmiðstöð verður lögð niður, einkahlutafélag um tæknisetur, kostað af ríkinu, verður stofnað og mun þurfa á næstu árum að byggja upp sitt orðspor og berjast fyrir því að tryggja sér fjárhagslegan rekstrargrundvöll, t.d. til að eiga möguleika á að sækja fjármagn úr rannsóknaráætlunum Evrópusambandsins sem Nýsköpunarmiðstöð hefur á undanförnum árum gert með góðum árangri og þannig dregið hundruð milljóna króna inn í hagkerfið sem runnið hafa til stofnunarinnar og samstarfsfyrirtækja innan lands.“

Kristján fjallar áfram um breytingar á rannsóknum í þessu efni og ályktun hans er að þetta sé meiri háttar breyting frá því fyrirkomulagi sem aðilar í íslensku atvinnulífi, sérstaklega úr tækni-, framleiðslu- og byggingariðnaði, hafi notið góðs af í meira en hálfa öld.

Þá segir áfram í niðurlagskafla Kristjáns Leóssonar að afleiðingarnar af því að samþykkja þetta frumvarp séu að hans mati, eins og hann kemst að orði:

„… laskað umhverfi til rannsókna og til stuðnings íslensku atvinnulífi, dreifðari þjónusta og aukinn beinn kostnaður hins opinbera bæði til skamms og langs tíma. Sá kostnaður sem þegar liggur í glötuðum tækifærum til stuðnings við atvinnulíf og uppbyggingar nýrra tækifæra vegna óvissuástands undanfarna tæpa 14 mánuði verður ekki svo auðveldlega metinn til fjár en ljóst er að hann er umtalsverður. Þessar ógöngur má að langmestu leyti rekja til þess að enginn viðeigandi undirbúningur átti sér stað áður en vegferðin hófst. Margt hefði vissulega mátt bæta í umhverfi nýsköpunar á Íslandi og starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands með viðeigandi greiningum, ábyrgum vinnubrögðum og úthugsuðum skrefum til breytinga með skynsamlega nýtingu opinbers fjármagns að leiðarljósi.“ — Hann lýkur bréfi sínu með því að segja, með leyfi forseta:

„Að mati undirritaðs er óásættanlegt að Alþingi samþykki jafn veigamiklar breytingar og hér um ræðir á jafn veikum grunni. Auðveldasta skrefið til úrbóta er að láta frumvarp ráðherra niður falla og hefja vinnu við endurskoðun og uppbyggingu rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarkerfis atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á faglegri forsendum.“

Frú forseti. Undir þessi orð skal tekið. Ég gat þess áðan að við þingmenn Miðflokksins studdum allar breytingartillögur meiri hluta hv. atvinnuveganefndar í ljósi þess að við töldum þær til bóta. En ég vil bæta við að þetta frumvarp er þannig, eins og ég hef rakið, m.a. með vísan til umsagna og gesta á fundum hv. atvinnuveganefndar og þess sem þeir höfðu þar að segja um málið, að við þingmenn Miðflokksins getum ekki stutt málið.

Frú forseti. Við ræðum hér líka annað mál sem er Tækniþróunarsjóður. Enda þótt við séum kannski ekki beinlínis sátt við hvernig það atvikaðist að við erum að fjalla hér um það mál felur það ósköp einfaldlega í sér að verið er að taka kafla úr gildandi lögum og setja sem sjálfstæð lög um Tækniþróunarsjóð. Við teljum að Tækniþróunarsjóður sé gagnleg stofnun og við viljum að sjálfsögðu að starfsemi hans sé tryggð fullnægjandi lagastoð. Hér er ekki verið að gera annað en að framlengja gildandi ákvæði um hann en núna í búningi sérstakra laga um sjóðinn sem við munum styðja.