151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki .

444. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem miða að því að fella niður óþarfa leyfisveitingar, draga úr aðgangshindrunum að mörkuðum og stuðla að heilbrigðri samkeppni.

Frumvarpið skiptist efnislega í átta kafla þar sem lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum, m.a. lögum um bókhald nr. 145/1994, lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins nr. 61/1997, lögum um sölu fasteigna og skipa nr. 70/2015, lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, höfundalögum nr. 73/1972, lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991, og brottfall laga um verslunaratvinnu nr. 28/1998 og laga um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem eru nr. 27/1981.

Umfjöllun nefndarinnar sneri kannski fyrst og fremst að tveimur þáttum, annars vegar eignarhaldi á fasteignasölu og hins vegar að prófi til viðurkenningar bókara.

Í 2. mgr. 7. gr. laga um sölu fasteigna og skipa, nr. 70/2015, er kveðið á um það skilyrði að sé fasteignasala stunduð í nafni félags skuli löggiltur fasteignasali eiga með beinum hætti meiri hluta í því. Samkeppniseftirlitið, sem lagði fram umsögn, kom fyrir nefndina og hvetur til þess að framangreint skilyrði verði fellt brott. Vísar Samkeppniseftirlitið í því sambandi til samkeppnismats OECD þar sem fjallað er um úrbætur til að draga úr samkeppnishindrunum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að litið hafi verið til þess hvort rök væru fyrir því að fella brott framangreint skilyrði.

Meiri hlutinn bendir á að fyrirkomulag fasteignasölu hér á landi sé að miklu leyti ólíkt því sem tíðkast í samanburðarlöndum og aðgangshindranir meiri, líkt og kemur fram í skýrslu OECD. Í skýrslu OECD er hvatt til þess að reglur um eignarhald á fasteignasölu verði teknar til endurskoðunar að því gefnu að lagðar verði til aðrar, og síður takmarkandi leiðir, til þess að tryggja hagsmuni neytenda og tryggja varnir gegn hagsmunaárekstrum. Meiri hlutinn hvetur ráðuneytið til þess að vinna að frekari afnámi aðgangshindrana á þessu sviði.

Í frumvarpinu er lagt til að próf til viðurkenningar bókara sem ráðherra veitir verði aflögð. Upphaflega markmiðið með viðurkenningu bókara var að auka gæði reikningsskila og skattframtala með aukinni þekkingu bókara á þeim sviðum. Sú leið var farin að fela ráðherra að standa fyrir námskeiði og prófi til viðurkenningar bókara og var sú viðurkenning tekin upp í lögum nr. 29/1997 við breytingu á lögum 145/1994, um bókhald. Var verkefnið í fjármálaráðuneytinu fyrst um sinn en síðan var það fært til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og er nú hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Nú er svo komið að nám bókara er orðið viðurkennt í atvinnulífinu sem mikilvægur hlekkur í keðju reikningsskila og er því ekki lengur talin þörf á að ráðherra hlutist til um að veita þessa viðurkenningu og standa fyrir sérstökum prófum. Fyrsta skrefið í þessu ferli var tekið með lagabreytingu árið 2011 þegar felld var brott skylda ráðherra til að hlutast til um að námskeið yrðu haldin. Talið er tímabært að taka næsta skref og er lagt til að viðurkenningu ráðherra verði hætt og lögverndun starfsheitisins því aflögð.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til eina breytingartillögu varðandi próf til viðurkenningar bókara. Í umsögn dómnefndar viðurkenndra bókara er bent á að í 8. mgr. 5. gr. reglugerðar um próf til viðurkenningar bókara, nr. 649/2019, sé kveðið á um að allir prófhlutar skuli vera dagsettir innan þriggja ára frá dagsetningu elsta prófsins. Þeir sem hófu fyrsta prófhluta haustið 2020 kynnu að hafa haft væntingar um að geta lokið síðasta prófhluta haustið 2023 og eftir atvikum upptökuprófi að vori 2024. Leggur meiri hlutinn því til að þeim sem það kjósa verði gefinn kostur á að ljúka prófum til viðurkenningar bókara fyrir 1. apríl 2024. Leggur meiri hlutinn til leiðréttingu á þessu svo að ákvæðið bætist við lög um bókhald.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur í nefndarálitinu.

Undir nefndarálitið skrifa Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Brynjar Níelsson framsögumaður, Jón Steindór Valdimarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórarinn Ingi Pétursson.