151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega ósammála því að það sé einhver óskýrleiki um ábyrgðarsvið. Viðmiðin eru auðvitað þau sem ríkissaksóknari metur og er falið að meta og gerir það alla daga, metur hvort mál heyri undir 262. gr. almennra hegningarlaga. Ef hann telur það ekki, og hérna er gert ráð fyrir að hann meti þetta, má ljúka málinu með viðurlögum á stjórnsýslustigi með sektum eða álagi. Flóknara er það ekki. Það er raunverulega gert í dag nema hins vegar að menn voru að afgreiða einhver mál með álagi hjá Skattinum og héraðssaksóknari að rannsaka sömu mál og ákæra og fékk síðan dóm. Þá lá fyrir einhver sekt eða álag hjá Skattinum sem enginn vissi af, eða ef þeir vissu af því þá breyttu þeir engu. Það var engu að síður dæmt með hliðsjón af því að það var alvarlegt brot og allt tekið í einu lagi þrátt fyrir að búið væri að refsa. Verið er að koma í veg fyrir þetta og það er mjög mikilvægt. Ég sé ekkert vandamál við viðmiðið. Þetta gerir ríkissaksóknari á hverjum degi, að meta það hvort mál heyri undir slíka rannsókn eða ekki. Ef hann gerir það ekki þá reiknar hann bara með að málinu ljúki og beinir því til skattyfirvalda. Í mínum huga er þetta alveg ótrúlega skýrt, eins og kom fram hjá öllum sérfræðingum, menn höfðu ekki áhyggjur af þessu. Menn geta auðvitað deilt um það hvenær mál telst meiri háttar og eigi að sæta ákæru og hægt sé að heimfæra undir 262. gr., en á endanum eru það alltaf dómstólar sem meta það.