151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur að hún sagði að frumvarpið fæli í sér skerðingu á heimildum og starfi skattrannsóknastjóra. Ég spyr: Hvaða heimildir er verið að taka af skattrannsóknastjóra og hvernig breytist starf hans? Hefur hann ekki sömu úrræði og áður? Sérstaklega er tekið fram að hann sé sjálfstæður í störfum sínum innan Skattsins. Hvað breytist? Er það virkilega þannig að Samfylkingunni finnst eðlilegt að öllum stjórnsýslustofnunum sem hafa eftirlit og rannsókn með hinum ýmsu málaflokkum, hvort sem það er fjármálaeftirlit, samkeppniseftirlit o.s.frv., verði líka falið ákæruvald í þessum málum? Er það stefnan? Ég vil fá að vita það. Er það virkilega þannig? Og að Landhelgisgæslan fái ákæruvald í landhelgisbrotum? Og svona mætti lengi telja. Nei, ég held að það sé mjög röng stefna, röng leið. Þess vegna tel ég þessa leið mjög skynsamlega, hún var löngu tímabær, alveg burt séð frá dómi Mannréttindadómstólsins. Það hafa einfaldlega verið mistök hjá okkur að vera ekki löngu búin að leiðrétta þetta þannig að saksókn sé algerlega skilin frá úrræðum stjórnsýslustofnana til að beita viðurlögum eftir rannsóknir sína og skoðun sem er hluti af eftirliti þeirra. Það er auðvitað kjarni málsins sem við eigum að huga að. Er ég ekki örugglega í andsvari? Ég á 13 mín. eftir.

(Forseti (ÞorS): Þingmaðurinn er í andsvari og forseti hefur vökul augu á klukkunni og mun stýra því.)

Þetta verður þá lengsta andsvar þingsögunnar. En spurningin var þessi: Hvaða skerðingar hafa orðið á störfum og heimildum skattrannsóknarstjóra?