151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sérfræðingar hafa mælt með því að skattrannsóknarstjóri fái ákæruvald — hvaða sérfræðingar voru það? Fyrir nefndina kom fjöldi manns. Það mælti enginn með því, ekki einu sinni fyrrverandi skattrannsóknarstjórar, fyrrverandi ríkisskattstjórar að auki, ekki nokkur maður. Það lítur enginn af þessum mönnum svo á að verið sé að veikja skattrannsóknarstjóra eða skattrannsóknir. Enginn, bara ekki nokkur maður. Sá eini sem hefur gert athugasemdir við þetta er skattrannsóknarstjóri sjálfur af því að hann er ekki lengur sjálfstæð stofnun úti í bæ. Hér er ekki verið að veikja skattrannsóknir, það er verið að styrkja þær þannig að skattrannsókn og eftirlit sé virkt innan stjórnsýslustofnunarinnar og málum lokið þar, langflestum. En um leið og skattsvik eru með þeim hætti að þau heyra undir alvarleg brot, undir hegningarlögin, er það miklu flóknara en að rannsaka skattalagabrot. Það fylgja því allt önnur brot. Þess vegna tel ég fráleitt í alla staði að öll þau mál verði bara hjá skattrannsóknarstjóra. Hvað lengi? Þangað til hann ræður ekki við þau lengur? Nei, það er langbest að það sé klippt og skorið hvaða mál eigi að vera eftir og hvaða mál fari áfram, eins og hugsunin er með þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Það er skilvirk skattrannsókn. Það er skilvirk meðferð mála.