151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

tekjuskattur.

399. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar reið yfir hefur fjárfesting dregist verulega saman og atvinnuleysi aukist til muna. Hið opinbera hefur brugðist við slaka í fjárfestingum með auknum útgjöldum til opinberra framkvæmda en skortur er á fjárfestingu af hálfu einkaaðila. Á sama tíma er ljóst að baráttan við loftslagsvána hverfur ekki þrátt fyrir að heimsfaraldurinn gangi yfir og áfram er nauðsynlegt að aðgerðir stjórnvalda styðji við stefnumótun um árangur í þeim efnum.

Til þess að styðja við græna umbreytingu, sem nauðsynleg er á öllum sviðum samfélagsins til að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda, er í því frumvarpi sem ég fjalla hér um, frumvarpi til laga um breytingar á tekjuskattslögum, lögð sérstök áhersla á að hvatarnir snúi að fjárfestingum í eignum sem teljast umhverfisvænar og stuðla að sjálfbærni. Þannig er frumvarpið liður í aðgerðum stjórnvalda og öflugri viðspyrnu gegn neikvæðum áhrifum Covid-faraldursins með það að sjónarmiði að ýta undir græna fjárfestingu.

Nefndin fékk fjölda aðila á sinn fund, eins og segir í nefndarálitinu, og einnig barst fjöldi umsagna við málið. Með þessu frumvarpi er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem annars vegar er kveðið á um heimild til að fyrna atvinnurekstrareignir í formi lausafjár, sem aflað er á árinu 2021, hraðar en gildandi lög segja til um, og hins vegar er kveðið á um heimild til að reikna sérstakt fyrningarálag af kaupverði ákveðinna umhverfisvænna atvinnurekstrareigna sem aflað er á árunum 2021 og 2022.

Eins og ég sagði áðan hefur atvinnuvegafjárfesting dregist verulega saman. Frumvarpið miðar því að því að skapa almenna atvinnurekstrarhvata til fjárfestingar. Með þessum skattalegu ívilnunum ætlum við okkur að ýta undir fjárfestingar í umhverfisvænum eignum. Jafnframt er þetta liður í aðgerðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins og hluti af stefnumótun um árangur í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Virðulegi forseti. Ég ætla þá að fara yfir nokkur atriði þar sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd lagði til ákveðnar breytingar. Varðandi fyrningarálagið segir í umsögn KPMG að sú ívilnun sem leiðir af heimild til flýtifyrningar samkvæmt 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði mismunandi eftir félagaformi. Ef fyrningarhlutfallið verður 15%, líkt og lagt er til, nemur ívilnunin 3% kaupverðs hjá félögum sem sæta 20% tekjuskatti. Það væri þá 5,64% kaupverðs hjá félögum sem sæta 37,6% tekjuskatti, en gæti numið allt að 7% kaupverðs hjá sjálfstætt starfandi fólki.

Hv. efnahags- og viðskiptanefnd óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu um þetta mál. Þar kom fram sú afstaða að miðað hefði verið við að ívilnunin væri 3%, óháð rekstrarformi. Þess vegna leggur nefndin til breytingu þess efnis að ívilnunin verði 5% af kaupverði, óháð rekstrarformi. Þá leggur nefndin til að heimild til fyrningarálags gildi til loka árs 2025. Með þessu verður betur stutt við græna fjárfestingu, sjálfbæra þróun og breytta hegðun í loftslagsmálum. Nefndin telur að tímabil fyrningarálagsins sé of stutt til þess að markmiðum frumvarpsins verði náð að fullu. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að leggja mat á reynsluna af sérstöku fyrningarálagi fyrir lok árs 2025. Þá erum við að velta fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til að gera þetta ákvæði varanlegt.

Í frumvarpinu er talað um BAT-viðmiðunarskýrslur. Ég ætla að leyfa mér að efast um að margir viti nákvæmlega um hvað fjallað er um þar. En nefndinni barst ábending í umsögn frá Umhverfisstofnun um að notast frekar við hugtakið BAT-niðurstöður en BAT-viðmiðunarskýrslur. Að höfðu samráði við ráðuneytið leggjum við til þessa breytingu. Er þar verið að tala um BAT-niðurstöður Evrópusambandsins og losunarviðmið í viðeigandi BAT-niðurstöðum Evrópusambandsins. Þetta er sem sagt frekar tæknilegs eðlis og bara orðalagsbreyting.

Í frumvarpinu er talað um að heimilt verði að reikna 15% fyrningarálag vegna eigna sem knúnar eru 100% af raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, lífeldsneyti eða rafeldsneyti. En við umfjöllun nefndarinnar kom fram að það er afar sjaldgæft að bifreiðar séu 100% knúnar metanóli, metani og etanóli. Alla jafna sé örlítið jarðefnaeldsneyti nýtt til þess að ná því hitastigi í vélinni að hún geti brennt lífeldsneytinu. Því leggur nefndin til að 100%, sem tilgreind voru í frumvarpinu, verði breytt í 85%. Teljum við það ná sama markmiði og í raun ná betri árangri þar sem þá er horft til þess lífeldsneytis sem stundum hefur átt dálítið í vök að verjast.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að birta lista yfir þá skattaðila sem nýta sér fyrningarálagið. Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka ferðaþjónustunnar segir að slík birting geti haft letjandi áhrif á nýtingu úrræðisins enda geti upplýsingar um fyrningarálag opinberað trúnaðarupplýsingar hjá fyrirtækjunum. Því leggur nefndin til að skylda Skattsins til að birta lista yfir þá sem nýta þau úrræði sem kveðið er á um í frumvarpinu, verði felld brott, enda kunni það að vinna gegn því markmiði frumvarpsins að hvetja til grænna fjárfestinga ef rekstraraðilar veigra sér við því að nýta sér þær ívilnanir.

Í 6. mgr. 1. gr. frumvarpsins er talað um álit óháðra sérfræðinga, þ.e. að með skattframtalinu skuli skila ákveðnum rökstuðningi fyrir því hvernig skilyrði fyrningarálagsins teljast uppfyllt varðandi hverja eign fyrir sig. En eftir yfirlegu og samráð við ríkisskattstjóra telur nefndin að óþarft sé að mæla fyrir um slík ákvæði og tiltekin fjárhæðarmörk eins og gert er í frumvarpinu. Við teljum nægjanlegt að ríkisskattstjóri leggi mat á það hverju sinni hvernig skatteftirliti er háttað, hvort og hvaða fjárhæðarmörk séu notuð til viðmiðunar við það mat og hvaða gögnum og skýringum hann óskar eftir frá skattaðila í því skyni hverju sinni. Þess vegna leggur nefndin til að það falli brott vegna þess að eftir þetta samráð teljum við að ríkisskattstjóri hafi þær heimildir sem til þarf til að óska eftir öllum þeim gögnum sem ástæða þykir til til að meta þessar fjárfestingar.

Í frumvarpinu var kveðið á um að fyrirtæki í eigu eða ábyrgð ríkisins eða sveitarfélaga féllu ekki þarna undir, og ekki heldur skattaðilar sem teljast vera í fjárhagsvanda. Eftir yfirlegu og ýmsar ábendingar frá gestum og þeim sem sendu okkur umsagnir telur hv. efnahags- og viðskiptanefnd að það sé í raun óþarfi. Við segjum það hér í svolítið löngum texta sem ég ætlaði að reyna að lesa ekki allan upp. En við teljum sem sagt ekki ástæðu til að hafa þessi skilyrði í frumvarpinu. Þegar kemur að fyrirtækjum í fjárhagsvanda, ef þau geta ekki nýtt sér þau úrræði sem lögð eru til, þá segir í minnisblaðinu:

„Atvinnurekstur í fjárhagsvanda væri með uppsafnað skattalegt tap og því myndi fyrningarálagið ekki vera ívilnun. Það væri ekki nema ef hægt væri að snúa við rekstrinum og mynda hagnað umfram eldra uppsafnað tap þannig að þá fyrst yrði gengið á fyrningarálagið. Ef ljóst væri að það myndi takast þá væri félag vart í fjárhagsvanda, þá ekki nema tímabundnum. Ráðuneytið telur því líklega rétt að fella út skilyrðið.“

Þar af leiðandi teljum við það óþarfa að vera með slíka útilokun inni.

Hvað fyrirtæki í eigu ríkisins eða sveitarfélaga varðar þá sköpuðust líka nokkrar umræður um það. Það kom sérstaklega fram í umsögn frá Landsvirkjun, að mig minnir, að ástæða væri til þess að orkufyrirtækin væru þarna undir. Þá er hægt að velta fyrir sér þessum fyrirtækjum almennt í eigu ríkis og sveitarfélaga og okkur fannst ástæða til að fella það út.

Auk þess eru aðrar breytingartillögur sem eru eingöngu tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif og liggja fyrir í sérstöku skjali um breytingartillögur á þessu frumvarpi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef farið hér yfir og þeim tæknilegu breytingum sem liggja fyrir.

Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem þeir hyggjast gera grein fyrir í þingræðu.

Jón Steindór Valdimarsson og Smári McCarthy rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Þeir eru ósammála rökstuðningi meiri hlutans fyrir brottfalli lokamálsliðar 5. mgr. 1. gr. um birtingu lista yfir þá sem nýta sér ívilnanir samkvæmt ákvæðinu á vef Skattsins.

Undir þetta nefndarálit skrifa allir hv. þingmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason og hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Smári McCarthy, Þórarinn Ingi Pétursson, Ólafur Þór Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson og sú sem hér stendur.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið við að fara yfir þetta nefndarálit. Mig langar til að segja að frá mínum bæjardyrum séð held ég að hér sé um ofboðslega mikilvægt mál að ræða. Það er m.a. vegna þess sem ég fór hér yfir, að við höfum því miður séð atvinnufjárfestingu dragast verulega saman og við vitum að það skiptir máli fyrir hagvöxt framtíðarinnar að atvinnufjárfesting sé veruleg. Með þessu viljum við ýta undir það, en ekki bara það, við horfum einnig til hvers konar viðspyrnu við sjáum út úr þessu kófi. Við erum að hvetja til grænna fjárfestinga og ýta með því undir þau markmið sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum. Það held ég að sé ofboðslega mikilvægt. Þá má velta fyrir sér af hverju þetta er Covid-aðgerð en ekki bara almenn aðgerð. Það er eitt af því sem ég velti fyrir mér. Ég kom aðeins inn á það í umfjöllunin minni hvort það væri eðlilegt að þetta væru bara almennir hvatar. Þá skiptast á þau sjónarmið að við eigum almennt að hafa lága skatta og ekki þurfa að flækja kerfið með slíku, en hitt sjónarmiðið er að við munum örugglega þurfa að horfa til þess í töluvert langan tíma að hvetja enn frekar til grænna fjárfestinga. Það er samt sem áður þannig að eins gott og frábært og þetta frumvarp er og markmiðið með því, þá má alveg eiga von á því að það verði eitthvert flækjustig við útfærsluna. Það er kannski ekki síst þess vegna sem við tökum á því í nefndarálitinu að farið verði yfir hvernig til tekst. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að slík samantekt myndi liggja fyrir áður en ákveðið væri nákvæmlega með hvaða hætti ætti að ráðast í skattalega hvata til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Ég er með öðrum orðum að segja að ég held, og nú tala ég frá eigin brjósti en ég hygg að við séum flest sammála um það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, að þetta sé ofboðslega mikilvægt mál. En þegar frumvarpið er skoðað og 1. gr. þess þá er þar ákveðin upptalning og það mun örugglega reyna á ágæta starfsmenn Skattsins þegar kemur að þessu öllu saman. Þar af leiðandi er einmitt ástæða til að sjá hvernig það mun allt saman ganga.

En stóra málið er að við þorum að stíga þessi skref. Ég held að þetta skref sé mikilvægt og við eigum að þora að stíga það. Þess vegna er ég þakklát hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að koma með þetta mál hér inn og nefndinni fyrir að afgreiða það hér út. Ég treysti á að við hér í þingsal munum ná að klára þetta mál hér á allra næstu dögum, vegna þess að ég veit að það eru fyrirtæki úti í samfélaginu sem bíða þess að sjá hvaða niðurstöðu við fáum í þetta mál. Ég er algjörlega sannfærð um að þetta verður hvati til frekari fjárfestinga og það er það sem við þurfum á þessum tímapunkti.