151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem getur gerst við þá breytingu sem lögð er til með þessu frumvarpi er að ákvarðanir færist fjær almenningi og að hagsmunir sveitarfélaganna verði látnir víkja fyrir hagsmunum framkvæmdaraðila sem gætu kannski náð sátt við sveitarfélögin ef þeir vönduðu sig við það. Þetta held ég að ætti að geta rímað ágætlega við stefnu allra flokka að standa vörð um. Kannski er rétt að undirstrika, af því að mér finnst einhvern veginn liggja í orðum hv. þingmanns að við séum eitthvað ósammála um nauðsyn þess að tryggja raforku um landið, að það erum við alls ekki. Ég vil hins vegar að við gætum að því að við förum ekki að brjóta t.d. 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna í leiðinni. Miðað við hvernig fulltrúar Sjálfstæðisflokksins láta varðandi frumvörp þess efnis þá spyr ég mig hvort það sé kannski stefna Sjálfstæðisflokksins að ýta sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga til hliðar þegar það hentar.