151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég velti því aðeins fyrir mér hvort hv. þingmaður sé farinn að teygja sig fulllangt þegar hann er farinn að túlka huga og vilja stjórnarmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, og segir hér: Samþykkt með semingi af Sambandi íslenskra sveitarfélaga út af forsendum sem breyttust í gærkvöldi.

Í umsögn sambandsins segir, virðulegur forseti, með leyfi þínu, og kemur kannski ágætlega inn á orð hv. þingmanns líka um vanbúið mál:

„Samband íslenskra sveitarfélaga hefur á fyrri stigum átt aðkomu að vinnu við mótun tillagna um breytingar á málsmeðferð, með setu í starfshópum sem ráðherra skipaði. Af þeirri ástæðu er ekki tilefni til mikilla efnislegra athugasemda við frumvarpið þótt í umsögn þessari verði áréttuð afstaða sambandsins um meginatriði frumvarpsins.“

Síðan eru tilteknar meginástæður þess að Samband íslenskra sveitarfélaga telur frávikið varðandi skipulagsvaldið vera ásættanlegt í mörgum, mörgum liðum. Það er nú semingurinn sem hv. þingmaður af visku sinni, eða kannski bara í pólitískum skylmingaleik, ákveður að fullyrða að fólk úti í bæ sé með.

Ég held að við eigum aðeins að gæta þess hvernig við tölum um fólk sem ekki er í þessum þingsal og túlkum orð þess. Og já, áréttað er að þetta sé verulegt frávik og lögð þung áhersla á að við umfjöllun um frumvarpið á Alþingi verði sá skilningur staðfestur að ekki séu áform um frekari skref, sem er einmitt það sem við gerum. Mér þykir heldur mikil minnimáttarkennd hjá hv. þingmanni, hjá löggjafanum, þótt einhver ráðherralufsa sem ekki á einu sinni á sæti á Alþingi [Hlátur í þingsal.] hafi einhverja skoðun á einhverju. Erum við ekki löggjafinn, takk fyrir?