151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég skal viðurkenna það að semingur var kannski fulldjúpt í árinni tekið. (Gripið fram í.) En Samband íslenskra sveitarfélaga undirstrikar að þetta frumvarp sé verulegt frávik og í því ljósi verði að staðfesta þann skilning að ekki séu áform um frekari skref í þessa átt. Hvað einhver ráðherralufsa segir skiptir máli þegar sú meinta lufsa er ráðherra málaflokksins sem um ræðir og er t.d. samflokksmaður framsögumanns málsins, sem er búinn að hnýta þetta haganlega í nefndarálit, en það hefur ekki skilað sér til ráðherrans. Annaðhvort þarf Alþingi að kveða fastar að orði eða hv. þingmaður að eiga orð við ráðherrann.

Ég held að þessi umræða eigi kannski betur heima í umhverfis- og samgöngunefnd í beinu samtali við ráðherrann þar sem mér heyrðist á fyrri ræðum að hv. þingmaður hefði misst af umræðum ráðherrans og hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur þar sem þessi orð féllu. Og það munum við væntanlega fá að heyra ráðherrann útskýra við næsta tækifæri í umhverfis- og samgöngunefnd.