151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég missti vissulega af umræðum í gær, en internetið er magnað fyrirbæri. Þar er hægt að verða sér út um ýmsar upplýsingar, m.a. þessar. Hv. þingmaður segir að annaðhvort verði að kveða fastar að orði í því sem nefndin getur nú eiginlega varla kveðið fastar að orði um, sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson og við ræddum hér um áðan að við hefðum hnýtt saman þá hnúta, eða að eiga samtal við ráðherrann.

Ég ætla að leyfa, mér, forseti, að velta upp þriðja möguleikanum: Að kannski túlki stjórnarandstöðuþingmaður hér orð ráðherrans ekki algerlega hundrað prósent. En það er akkúrat samtal sem við skulum eiga við hæstv. ráðherra í öðru samhengi. Ég segi bara aftur: Hæstv. ráðherra má hafa hvaða hugmynd sem hann vill hafa. Ég veit ekki hvort lýsing hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar á vilja hæstv. umhverfisráðherra er sú eina rétta, en ég veit að samþykkt Alþingis, lögskýringargagnið, nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, er það sem telur.

Mig langar, forseti, að spyrja hv. þingmann um mál sem er mér nokkuð skylt, því að ég hripaði líka eftir honum að heildarendurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum gæti dugað til að ná utan um þau vandamál sem komið hafa upp varðandi uppbyggingu flutningskerfis raforku. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig? Því að ég kom að því að semja þau lög, hef verið vakinn og sofinn í því í rúm tvö ár, en klóra mér aðeins í kollinum yfir því hvernig þau lög eiga að vera svarið við þessu vandamáli. Það væri ánægjulegt að fá að heyra það frá hv. þingmanni.