Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn á meðferðarheimili.

[13:25]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja að ég hef í tvígang fundað með umræddum konum. Í framhaldi af því ákvað ég að við legðum til við ríkisstjórn að fram færi rannsókn á þessu máli. Síðan barst ítrekunarpóstur rétt fyrir páska og málið er í farvegi innan Gæða- og eftirlitsstofnunar, sem ég ætla að fara aðeins yfir á eftir, og aðstoðarmaður minn átti gott samtal við eina af þessum konum síðast í gær.

Þannig er að um er að ræða tiltölulega viðamikið verkefni og ég held að gríðarlega mikilvægt sé að það sé ekki pólitíkin sem heldur utan um rannsóknirnar sem slíkar. En mér er kunnugt um og hef ýtt á eftir því við Gæða- og eftirlitsstofnun, sem er sjálfstæð eftirlitsstofnun, að rannsóknin sé sett í forgang og að það verði ekki fjármagn sem þar muni skorta. Gert er ráð fyrir því, samkvæmt verkáætlun sem ég hef kallað eftir frá Gæða- og eftirlitsstofnun og hefur borist, að það verði um þrír til fjórir sérfræðingar með þekkingu á rannsóknum í barnavernd og áföllum sem muni koma að þessu verkefni. Nú er verið að kalla eftir gögnum sem málinu tengjast og mér skilst að sá gagnalisti sé upp á 500 málsskjöl eða þar um bil. Stofnunin gerir ráð fyrir því að ljúka rannsókn sinni á árinu 2021. Þetta er gríðarlega umfangsmikið. Aðilar málsins eru 101 fyrir utan starfsmenn barnaverndarnefnda og aðra starfsmenn og gert er ráð fyrir eigindlegu viðtali við hvern og einn þessara starfsmanna og gert ráð fyrir að þau viðtöl byrji um miðjan maí. Það er því algerlega skýrt að ekkert er til sparað í þessu máli. Það er ekki verið að reyna að draga neitt. Hins vegar hef ég líka lagt áherslu á (Forseti hringir.) að þarna sé vandað til verka og ég sé ekki annað en að Gæða- og eftirlitsstofnun sé að gera það. (Forseti hringir.) En að öðru leyti mun ráðherra ekki skipta sér af rannsókninni sjálfri vegna þess að hún er í höndum þessarar sjálfstæðu eftirlitsstofnunar.