151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að rekja allt málið, það var gert ágætlega við 2. umr., en vil segja að ég ætla að greiða atkvæði gegn þessu máli. Ég er á móti því. Ég tel það illa hugsað, tel það hafa hafist með þeirri ákvörðun að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og að restin sem kom á eftir sé einfaldlega einhvers konar mix til að finna út úr því hvað ætti að gera í kjölfarið á þeirri ákvörðun. Það er rangur inngangspunktur, virðulegi forseti. Það voru gríðarleg tækifæri til að efla nýsköpun á Íslandi með aðstoð m.a. starfsfólks Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem þessi ríkisstjórn ákvað að nýta ekki. Auðvitað vona ég að þetta gangi vel. Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér í þessum efnum. En eftir að hafa skoðað málið og hlýtt á umræður þá er mín eindregna afstaða sú að þetta séu mistök. Því greiði ég atkvæði gegn því.