151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að sigla inn í tíma þar sem nýsköpun verður að leika miklu stærra hlutverk í verðmætasköpun landsins. Þetta eru líka störf sem hægt er að vinna hvar sem er á landinu. Með þessu frumvarpi eru ríkisstjórnarflokkarnir að leggja til að Nýsköpunarmiðstöð verði lögð niður án þess að skýrt sé hvað komi í staðinn. Þessi áform hafa fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum hagsmunaaðilum sem vara við að samþykkja jafn loðið og óljóst frumvarp og raun ber vitni. Byggingarrannsóknir eru svo sannarlega brýnar á landi eins og Íslandi þar sem húsnæðiskostnaður er hár en þær eru einnig skildar eftir algerlega í lausu lofti og algjörlega óljóst hvernig staðið verður að þeim í framtíðinni. Þetta er mjög illa hugsað mál og ég og Samfylkingin segjum nei við því.