151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:43]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi að nýsköpun yrði að leika miklu stærra hlutverk í íslensku samfélagi. Það er akkúrat það sem við höfum verið að gera. Þetta frumvarp er liður í því að nýsköpun muni leika enn meira og stærra hlutverk í íslensku samfélagi. Ég er ánægð að við séum að greiða atkvæði um þetta mál. Við lögðum af stað út í þetta verkefni því að ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda okkar stjórnmálamanna að vera stanslaust að rýna hvar hið opinbera geti sinnt verkefnum betur og hverju megi einfaldlega hætta, með áherslu á að forgangsraða til framtíðar. Ég er stolt af þeirri vinnu sem við höfum lagt í og ég þakka hv. atvinnuveganefnd kærlega fyrir vinnuna. Rýnt hefur verið í öll atriði sem fram hafa komið og ég efast ekki um að verkefnin og umhverfið sé í betri, skynsamlegri og áhrifameiri farvegi en áður. Við erum með þessu að stíga enn eitt skrefið, enn eitt farsæla skrefið til að efla nýsköpunarumhverfið til gróskumeiri framtíðar hér á Íslandi.

Hér var sérstaklega nefnt landið allt. (Forseti hringir.) Það er ótrúlega jákvætt að finna fyrir þeim mikla aukna krafti sem við finnum fyrir úti um allt land. (Forseti hringir.) Þetta er einmitt liður í því að fólk er að fara af stað (Forseti hringir.) með góðar, stórar hugmyndir víða um land sem ég tel að sé mjög sjálfbær þróun fyrir íslenskt nýsköpunarstarf.