151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er mjög áhugavert að heyra að menn séu að reyna að halda því fram hér að verið sé að draga úr skattrannsóknum með þessum hætti. Það er verið að styrkja embættið til þess að sinna þessari skyldu þess. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að gera það og ljúka málum á því stigi. Þá er mikilvægt að þessar stofnanir, skattrannsóknir og eftirlitið í Skattinum, séu á sama stað. Það á að ljúka málinu. Önnur mál fara í annan farveg og það er sakamálameðferð, það er ákæra. Það eru meiri háttar brot. Það er ekki á vegum skattyfirvalda að fara í slíka málsmeðferð. Það er algerlega fráleitt í mínum huga og mun ekki gera neitt gagn en það er verið að ýja að því hér, eins og alltaf er gert þegar reynt er að bæta stöðu þessara stofnana og styrkja þær, að verið sé að draga úr einhverju eftirliti, reyna að koma mönnum undan réttvísinni. Það eru öfugmæli.