151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[14:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Góðir hlutir gerast hægt. Þetta mál hefur um langa hríð verið hugleikið fjölmörgum hv. þingmönnum, að styðja og efla almannaheillastarf í landinu með skattalegum hvötum til einstaklinga og lögaðila, til þeirra sem leggja þeirri starfsemi lið. Ég vil þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka málið til sín með skipan starfshóps og leggja í metnaðarfullan undirbúning að frumvarpi, ellegar værum við ekki að greiða atkvæði með framgangi þessa máls hér í dag. Það er ástæða til að fagna þeim einhug og þeirri samstöðu sem ríkir um málið, sem er auðvitað í eðli sínu flókið í útfærslu þegar kemur að skattkerfum og gildissviði og birtist m.a. í þeim breytingum á frumvarpinu sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd leggur til og eru til bóta. Málinu fylgir fjármagn, 2,1 milljarður á fjárlögum, en það er ekki síst viðurkenning á mikilvægi sjálfboðastarfs sem í því felst, stuðningur í verki við fjölbreytt, nauðsynlegt og óeigingjarnt starf í samfélagslega þágu.