151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld .

342. mál
[14:28]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Málin sem berast til efnahags- og viðskiptanefndar eru misjafnlega skemmtileg, þau eru misjafnlega flókin og umfang þeirra er misjafnt, stundum heilu bækurnar, eins og við erum nú að fara að glíma við, og þau eru líka misjafnlega ánægjuleg. Það hefur verið einstök ánægja að fá að glíma við þetta frumvarp og ég þakka hæstv. fjármálaráðherra kærlega fyrir að senda það í nefndina og ég þakka nefndinni líka fyrir það ánægjulega samstarf sem náðist í þessu máli. Mér finnst að við eigum að vera pínulítið montin eða hreykin af okkur í dag þegar við sendum þessi góðu skilaboð og segjum: Þið sem leggið þetta allt á ykkur, öll þessi almannaheillafélög, íþróttafélög, björgunarsveitir, líknarfélög, takk kærlega fyrir. Við kunnum að meta það sem þið eruð að gera og við ætlum að hvetja almenning til að styðja þéttar við bakið á ykkur en áður (Forseti hringir.) vegna þess að við vitum að íslenskt samfélag væri ekki eins gott og það er ef ykkar nyti ekki við.