151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er erfitt að fjalla um þetta tiltekna mál af því að hér átti að vera ákveðið ferli í gangi. En höfum í huga að lekar eru ofnæmisviðbrögð samfélags gegn farsóttum leyndarhyggju. Trúnaður er mekanismi sem er ætlaður til að verja hagsmuni til skemmri eða lengri tíma. Trúnaður er þá aðeins réttlætanlegur ef réttlætanlegt er að verja hagsmunina. Ef trúnaður er rofinn hlýtur það að vera undantekningartilvik. En það var alla tíð ljóst að mínu mati með skýrslu sem þessa að hún myndi að lokum fara í fjölmiðla og að opinber umræða myndi hefjast. Það er alveg augljóst. Það hefði verið stórkostlega óeðlilegt ef svo hefði ekki verið. Auðvitað ber maður virðingu fyrir því að hæstv. ráðherra hefði viljað sjá skýrsluna, en þingið verður auðvitað að geta brugðist við þegar þetta lekur. Það eru tvær leiðir í boði: Fyrri leiðin er meiri leyndarhyggja, að hendur fólks séu bundnar með einhverjum hætti. Það kallar bara á sterkari ofnæmisviðbrögð. Hin leiðin er að hagsmunir þeirra sem njóta góðs af leyndinni víki fyrir hagsmunum samfélagsins.