151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[15:19]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða þetta mál sem snýr að breytingu á skipulagslögum, uppbyggingu innviða og íbúðarhúsnæðis. Þessi umræða snýst helst um raflínunefnd og hvernig eigi að standa að þeim málum en mér fannst koma þar í gegn misræmi. Ég var að lesa yfir frumvarpið sem var lagt fram og þetta snýr að flutningskerfi raforku. Það sem stendur í a-lið 1. gr. og er bætt við, er:

„Flutningskerfi raforku: Raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotenda og til dreifiveitna, sbr. og nánari skilgreiningu á flutningskerfi í raforkulögum.“

Síðan segir enn fremur í frumvarpinu, í kaflanum um raflínuskipulag, í 3. mgr. a-liðar 7. gr.:

„Við gerð raflínuskipulags skal taka mið af landsskipulagsstefnu. Við gerð skipulagsins skal einnig taka mið af ákvæðum raforkulaga, um gildandi stefnu stjórnvalda um flutningskerfi raforku og staðfesta kerfisáætlun.“

Nýjustu kerfisáætlun var einmitt verið að stimpla, skilst mér, fyrir nokkrum dögum.

Það sem ég var að reyna að fá fram í gær var skilningurinn á þessu í umræðunni. Ef ég vitna í nefndarálit meiri hlutans í þessu ágæta máli þá stendur í umfjöllun nefndarinnar um meginefni frumvarpsins:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum vegna breyttrar stjórnsýslu í tengslum við framkvæmdir í flutningskerfi raforku með skipan svokallaðrar raflínunefndar sem annist gerð raflínuskipulags, veiti framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku sem byggist á staðfestri kerfisáætlun og hafi eftirlit með þeim framkvæmdum.“

Þarna er bara verið að tala um flutningskerfið sem Landsnet er með. Það er tvískipt. Ég sé ekki í frumvarpinu að það sé talað neitt sérstaklega um meginflutningskerfi heldur bara flutningskerfi raforku, sem er það kerfi sem Landsnet rekur. Það er byggðalínuhringurinn annars vegar, sem er meginflutningskerfið, og svo rekur Landsnet einnig svæðisbundna kerfið sem er hluti af þessu flutningskerfi sem Landsnet rekur og tengir við stórnotendur og dreifiveitur. Ég las það sem kom frá nefndinni og þar er bara tekið undir þetta með framkvæmdir í flutningskerfi raforku. Síðan segir í kaflanum um raflínunefnd og raflínuskipulag, svo ég vitni í nefndarálitið, hæstv. forseti:

„Framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku eru sérstaks eðlis, liggja yfir mörk nokkurra sveitarfélaga og eru ólíkar ýmsum öðrum samfélagslegum innviðum, sem að mati meiri hlutans réttlæta að umfjöllun um skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi hljóti sérstaka málsmeðferð.“

Eins og hefur komið fram í þessari umræðu verður þetta í rauninni til sem hugmynd frá átakshópnum sem skilaði hugmyndum í febrúar eða mars í fyrra eftir storminn í desember 2019. Þetta var ein af tillögunum þar. Það sem ég er að reyna að vekja athygli á er hvernig menn skilgreina flutningskerfi raforku, að það sé sami skilningur og er í frumvarpinu. Þarna í nefndarálitinu er bara þetta eina aukaorð, meginflutningskerfi. Það hljómar eins og þetta eigi bara við það en ekki staðbundna kerfið í flutningskerfinu. En það var einmitt það kerfi sem varð fyrir gríðarlegu tjóni í óveðrinu í desember 2019. Það var ekki bara byggðalínuhringurinn sem fór illa í fyrsta skipti, þar sem sá á honum á nokkrum stöðum, heldur var það raunverulega í svæðisbundna kerfinu þar sem við sáum mestu hörmungarnar í óveðrinu; Sauðárkrókslína, Dalvíkurlína, Húsavíkurlína, Kópaskerslína og Laxárlína fyrir norðan fóru allar niður. Þær eru hluti af þessu flutningskerfi raforku hjá Landsneti. Þannig skil ég texta frumvarpsins. Það er sem sagt á einum stað í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar talað um meginflutningskerfi, annars er talað í anda frumvarpsins. Það er þessi skilningur sem ég er að hugsa um, ég veit ekki hvort þetta eru bara mistök í textanum eða hvort þar er einhver hugmyndafræði á bak við.

Svæðisbundna kerfið getur líka náð yfir fleiri en eitt sveitarfélag og það geta verið tvö, þrjú sveitarfélög. Ég veit a.m.k. um eitt dæmi sem ég get nefnt strax þar sem það á við þrjú sveitarfélög. Það er t.d. Dalvíkurlína, sem nær yfir Akureyri, Hörgársveit og Dalvíkurbyggð, sem dæmi. Þessi skilningur skiptir máli. Þar á að fara í framkvæmdir á næstu árum og línurnar fóru illa út úr þessu veðri. Þessi skilningur þarf að vera tryggður, að við séum að tala um þann skilning sem kemur fram í frumvarpinu í þessu máli. Mér finnst það skipta máli vegna þess að það er eðlismunur á þessum tveimur hlutum. Það er auðvitað alls staðar mikilvægt að þetta virki allt saman, að við fáum rafmagnið okkar og það er náttúrlega það sem allt þetta mál snýst um, raforkuöryggi. Það er það sem átakshópurinn eftir óveðrið tekst á við með þessari tillögu, að þetta sé unnið og hefur nú ratað til okkar á þessu eina ári og inn í þetta mál.

Annars ætla ég ekki að fara að lengja mikið þessa umræðu en fyrst og fremst snýr þetta bara að því hvort þetta eigi ekki líka við svæðisbundna kerfið vegna þess að það er fullt af línum þar undir í þessu máli.