151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég ætla aðeins að bregðast við ýmsu sem sagt hefur verið í þeirri umræðu sem kláraðist hér í gærkvöldi og byrja á orðum hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar áðan varðandi nefndarálitið, þ.e. að á einum stað sé talað um meginflutningskerfi raforku, hvort það stangist á við það sem er í frumvarpinu. Þess er að geta að í nefndarálitinu, á þeim stað þar sem orðið meginflutningskerfi er, erum við eingöngu að útskýra afstöðu okkar til fordæmisgildis þessa. En að sjálfsögðu erum við að leggja til að frumvarpið verði samþykkt með öllum þeim hugtökum sem þar eru inni. Það er búið að óska eftir því að málið verði kallað til nefndar á milli 2. og 3. umr. og ég styð það innilega, forseti, ég mun koma aðeins inn á það á eftir. Við skulum setjast yfir það. En ég held að ég geti fullyrt að það sé engin meining á bak við þetta önnur en þessi og að sjálfsögðu eru það hugtökin í frumvarpinu sjálfu sem gilda. Frumvarpið er býsna skýrt um hvernig búið er um raflínunefnd og það er það sem gildir.

Forseti. Mig langar að bæta örfáum orðum við þessa umræðu sem hefur að mínu viti verið sérstök, ekki endilega öll, um málið. Ýmislegt úr henni rataði í fjölmiðla en ekkert efnislegt. Mér fannst við fara ágætlega af stað en síðan kom einhvern veginn pólitíkin upp í okkur og allt í einu vorum við, og ég þar með talinn, ekki endilega að reyna saman að finna bestu leiðina í þessu vandasama máli heldur í einhverri flokkspólitík. Mér þykir það leitt, forseti, því að þetta mál er býsna mikilvægt. Það tekur á býsna stórum þáttum, spilar inn á býsna miklar grundvallartilfinningar. Ég er þeirrar skoðunar að það séu allir að vanda sig hérna, allir að reyna að gera þetta sem best úr garði. Þess vegna hefði ég kosið að umræðan hefði snúist um þetta mál en ekki um hvað fólk vill sjá í framtíðinni, umræðu sem eykur jafnvel enn á þann ótta sem ég ætla að segja að sé býsna réttmætur hjá sveitarfélögunum varðandi skipulagsvald.

Ég ætla að biðja þá þingmenn sem hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar staðið í því að flytja mál þar sem lagt er til að skipulagsvaldi sveitarfélaga sé vikið til hliðar, að horfast í augu við sína ábyrgð á tortryggni sveitarfélaganna sem birtist í áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga, birtist í áliti Reykjavíkurborgar. Nefndin tók þessa tortryggni mjög alvarlega og þess vegna orðar nefndin þessa hluti eins og hún orðar þá í nefndarálitinu. Þess vegna finnst mér leitt að í umræðunni í gær mátti skilja eins og það skipti ekki nægilega miklu máli. Já, í umsögn sambandsins, í bókun frá fulltrúum Reykjavíkurborgar og í umsögn Reykjavíkurborgar er sérstaklega kveðið á um að þetta megi ekki vera fordæmisgefandi, að menn verði bara að hafna frumvarpinu af ótta við að það sé fordæmisgefandi, sérstaklega frá Reykjavíkurborg. Sambandið vildi samþykkja það, svo ég sé alveg skýr. Við í nefndinni tókum þær ábendingar mjög alvarlega og það kemur fram í nefndarálitinu. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa þann kafla aftur af því að mér finnst eins og hann liggi óbættur hjá garði:

„Ljóst er að frumvarpið felur í sér frávik frá meginreglum skipulagslaga um að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið. Öll slík frávik ber að túlka afar þröngt. Meiri hlutinn bendir á að nú þegar setja ýmis lög takmarkanir á heimildir sveitarfélaga til ákvarðanatöku um landnotkun við skipulagsgerð eins og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði frumvarpsins eru skýrt afmörkuð að efni, þ.e. taka einungis til lagningar raflína í flutningskerfi raforku. Ákvæðin ná ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda og er það mat meiri hlutans að þær skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga.“

Skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Þetta er ekki sett inn af einhverri léttúð, forseti. Þetta er sett hér inn af því að mjög eðlileg tortryggni hefur skapast hjá sveitarfélögum. Sum sveitarfélög tortryggja frumvarp um hálendisþjóðgarð. Ég er ósammála þeim sem telja að það gangi á skipulagsvald en ég virði þá skoðun af því að hún byggir á þessari tortryggni. Erum við ekki með frumvarp um lögbundna sameiningu sveitarfélaga? Gengur það ekki þvert á skipulagsvald sveitarfélaga, gegn vilja þeirra? Eykur það ekki á tortryggnina? Jú. Flytja þingmenn ekki reglulega hér mál sem ganga þvert á skipulagsvald sveitarfélaga; um raflínurframkvæmdir, Suðvesturlínu, Teigsskóg, flugvöllinn í Reykjavík, þar sem gengið er þvert á skipulagsvald sveitarfélaga? Er óeðlilegt að þau sveitarfélög sem þar eru undir séu orðin býsna tortryggin? Nei, forseti. Það er mjög eðlilegt. Þess vegna eigum við sem ábyrgt stjórnvald að sýna þessari tortryggni skilning. Það er ástæða fyrir því, ég ætla að minna okkur öll á það, að við fórum í þessa vinnu með þetta frumvarp þar sem er búið svo um hnútana varðandi skipulagsvaldið að raflínunefnd er komið á, það var ófremdarástandið sem skapaðist vegna óveðurs. Við vorum sammála um að við þyrftum vegna þess ástands, akkúrat þess ástands, forseti, vegna óveðursins, rafmagnsleysisins, að grípa til sérstakra aðgerða. Nýtum ekki það ástand til að koma einhverjum öðrum breytingum inn.

Forseti. Þetta er nefnilega stórt mál, þjóðþrifamál. Ég er á því að þó að við höfum einhverjar skoðanir í ýmsar áttir um hvað ætti að gera í framtíðinni, sem er allt í himnalagi, fólk hefur ólíkar skoðanir, þá séum við, eins og ég sagði áðan, öll að gera okkar besta hér. Við erum að vanda okkur. Mér finnst nefndarálit meiri hlutans bera þess vott.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kallaði eftir því við umræðuna í gærkvöldi að málið færi aftur inn til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég styð þá beiðni, forseti, og vil upplýsa um að kallað var sérstaklega eftir því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra kæmi fyrir nefndina og útskýrði orð sín í umræðum um annað mál hér í þingsal. Hann hefur tekið mjög vel í þá beiðni og er tilbúinn að mæta fyrir nefndina til að útskýra orð sín hvað það varðar.

Forseti. Ég vil ljúka máli mínu hér með því að minna á að nefndarálit meiri hlutans, þingskjalið sem við erum að ræða núna, er lögskýringargagn sem skiptir máli við afgreiðslu þessa máls.