151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[17:07]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir prýðisgóða ræðu og sögulegar skýringar á tilurð þessa máls og hvernig tímarnir geta breyst frá 1923 og til 2021. Það eru bráðum 100 ár og margt hefur breyst á þeim tíma og margt breyst frá því að ég var ungur og er ég nú ekki orðinn neitt mjög gamall. Ég er Borgfirðingur í grunninn og man vel eftir því þegar menn voru með netalagnir í laxveiðiám og höfðu töluverðar tekjur af því og mikið umleikis. Svo var það í raun og veru keypt upp og tímarnir breyttust mikið við það og þetta er meira og minna allt stangveiði núna. Ég hjó eftir því að þingmaðurinn var að tala um breyttar forsendur og allt það og nú hefur þetta mál verið til umræðu í nefndinni alllengi, mikið um gestakomur og menn eru að kasta þessu á milli sín. Þetta er rosalega viðkvæmt mál, minnihlutavernd, og sitt sýnist hverjum í því eins og gefur að skilja. Spurning mín til hv. þingmanns er: Getur þingmaðurinn séð fyrir sér langan tíma þangað til við þurfum að taka þetta mál upp aftur? Hann talaði um að þetta væri frekar svona varfærið skref. Hefði þingmaðurinn kannski viljað taka einhver stærri og ákveðnari skref eða er hann sáttur við málið eins og það er á þessu stigi?