151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[17:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það er erfitt að horfa inn í þá kristalkúlu sem segir okkur til um hvað framtíðin ber í skauti sér. En það er alveg rétt að þetta er viðkvæmt mál og það er einmitt það sem margir fundargestir og umsagnir segja í sambandi við þetta mál, það er þessi vogarskál sem er erfitt að ballansera þegar við erum að fá góða niðurstöðu í þetta mál, minnihlutavernd. Ég veit að við hv. þingmaður erum alveg sammála um að það er mikils virði að jarðir vítt og breitt um landið, ekki síst jarðir þar sem eru laxveiðiár eða fiskveiðiár, séu jafnframt nýttar. Það er náttúrlega það sem menn hafa áhyggjur af í dag þegar verið er að tala um jarðasöfnun meðfram því að vernda veiðirétt eða umgengni um þessar ár, þessi vatnsréttindi.

Ég er ekki með neina spurningu til þingmannsins. Ég verð að þakka nefndinni fyrir gott samstarf í þessu máli. Ég og hv. þm. Ólafur Ísleifsson leggjum fram breytingartillögu um matsnefndina og það er í raun og veru (Forseti hringir.) ekki mikið ósamkomulag í því heldur þykir okkur það bara þurfa að vera á þennan hátt sem fram kom í hans máli.