151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

stjórn fiskveiða.

51. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Áður en ég mæli fyrir frumvarpinu vil ég segja að mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Fyrir rúmum 20 árum voru lagagreinar samþykktar sérstaklega til að vinna gegn samþjöppun aflaheimilda sem talin var skaðleg, ekki síst út af mikilvægi fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýddi meiri völd þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt væri og staða þeirra yrði of sterk gagnvart stjórnvöldum; samþjöppun kæmi í veg fyrir samkeppni og hamlaði nauðsynlegri endurnýjun. Þá geti samþjöppun beinlínis unnið gegn þjóðarhag, sérstaklega ef viðkomandi standa sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Tilfærsla milli byggða reynist skaðleg sveitarfélögum og tilfærsla milli útgerðarflokka gæti leitt til þess að minni útgerðir færu halloka.

Lögin hafa ekki náð tilgangi sínum. Eins og þau hafa verið túlkuð má einn aðili ráða yfir 12% kvótans og því til viðbótar eiga 49,99% hlut í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa. Þannig getur einn aðili átt hlutdeild í meira en helmingi kvótans sem árlega er úthlutað. Þessi túlkun á lögunum ýtir augljóslega undir samþjöppun og gengur þannig þvert á anda laganna. Samþjöppun leiðir af sér fábreytt útgerðarform, aukna kerfislæga áhættu og getur leitt til einokunar. Stóru útgerðarfyrirtækin hér á landi eru í raun rekin sameiginlega og hafa samráð um veiðar, vinnslu og sölu afurða. Það er nauðsynlegt að vinna gegn slíkri samþjöppun og því að stóru fyrirtækin verði svo stór að völd þeirra og áhrif í þjóðfélaginu geti orðið skaðleg, að áhrif þeirra á ákvarðanir í stjórnkerfinu og á vettvangi stjórnmála geti unnið gegn almannahag. Það þarf að endurskoða lögin og það þarf að gera það strax og koma þannig í veg fyrir frekari samþjöppun eða núverandi túlkun á lögunum. Fyrirmynda án fordæma mætti auðveldlega leita í þeirri þróun sem hefur átt sér stað á fjármálamarkaði varðandi það hvenær aðilar teljist tengdir og hvað felst í raunverulegum yfirráðum. Þar hefur þetta mark verið lækkað og viðurkennd sú aðstaða sem aðilar eru í ef þeir hafa veruleg áhrif í félögum. Í nýjum lögum um skráningu raunverulegra eigenda er miðað við 25% beinan eða óbeinan eignarhlut til að aðilar geti talist tengdir eða aðili teljist raunverulegur eigandi. Allar þær upplýsingar eru samkvæmt lögum aðgengilegar almenningi.

Herra forseti. Það var í þessum anda sem þetta frumvarp var samið, sem ég mæli nú fyrir og sem hefur þau skemmtilegu númer að vera 51. mál á þskj. 51 á 151. löggjafarþingi. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, þess efnis að nánar verði skilgreint í lögunum hvað felst í hugtökunum „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“.

Frumvarpið miðar að því að hrinda í framkvæmd tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sem verkefnastjórnin skilaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 30. desember 2019. Verkefnastjórninni var m.a. falið að bregðast við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu er varðar samþjöppun aflaheimilda. — Ég vil skjóta því hér inn, herra forseti, að það var eftir fréttaþáttinn Kveik, sem mig minnir að hafi verið haustið 2018, að ég ákvað að semja skýrslubeiðni og biðja um úttekt á eftirlitshlutverki Fiskistofu, ekki bara varðandi samþjöppun heldur einnig varðandi annað eftirlit með auðlindinni eins og brottkasti og vigtun afla. Það var þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar, um eftirlit Fiskistofu, sem síðan er grunnurinn að áframhaldandi starfi. Sú sem hér stendur átti síðan sæti í verkefnastjórninni sem var falið að bregðast við ábendingum í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

Í kjölfar skýrslu verkefnastjórnarinnar birti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem byggðust á niðurstöðum hennar. Þegar það frumvarp var samið sem ég mæli fyrir núna hafði frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki komið fram sem nýlega hefur verið mælt fyrir og er nú til umræðu og afgreiðslu í atvinnuveganefnd. Það er gott að ég fái að mæla fyrir þessu máli núna og það gangi síðan til atvinnuveganefndar. Þá getur nefndin unnið bæði með þetta frumvarp og frumvarp hæstv. ráðherra sem vonandi mun gagnast nefndinni til að gera breytingartillögur við frumvarp ráðherrans því að samkvæmt því verða að mínu mati bæði 13. og 14. gr. laganna áfram óskýrar og því áfram ómögulegt fyrir Fiskistofu að hafa eftirlit með tengdum aðilum og sjá til þess að ekki verði farið fram yfir 12% markið.

Í 13. gr. laga um stjórn fiskveiða er fjallað um hámarksaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Frá því að reglur um hámarksaflahlutdeild voru fyrst lögfestar hefur orðið samþjöppun á aflahlutdeildum og fara nú tíu stærstu útgerðarfélög landsins með meira en helming aflahlutdeilda. Samhliða þeirri þróun hefur aðilum í sjávarútvegi fækkað ört. Útgerðir sem réðu yfir aflahlutdeildum voru 946 í upphafi fiskveiðiársins 2005/2006 en þeim hafði fækkað niður í 382 árið 2019. Í skilgreiningu laganna á hugtakinu tengdir aðilar er miðað við að aðilar séu tengdir eigi annar aðilinn beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar. Þannig getur einn aðili, eins og ég fór yfir í inngangi mínum hér áðan, farið með hámark leyfilegrar aflahlutdeildar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. en þar að auki átt allt að 49,99% hlut í öðrum fyrirtækjum sem fara með aflahlutdeildir samkvæmt lögunum. Ljóst er að slíkt eignarhald gengur gegn markmiðum laganna auk þess sem skilgreiningin er í ósamræmi við skilgreiningu raunverulegra eigenda samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018. Það er því stutt síðan við samþykktum í þessum sal lög sem skilgreina hvað eru raunverulegir eigendur í félögum og fyrirtækjum. Samkvæmt þeim lögum telst m.a. til raunverulegra eigenda einstaklingur sem í raun á eða stjórnar lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ræður yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða telst á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila. Sá munur sem er á skilgreiningu eignatengsla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða og lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka skýtur skökku við, enda getur aðili talist raunverulegur eigandi lögaðila án þess að teljast tengdur aðili samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Þú getur verið raunverulegur eigandi samkvæmt lögum um raunverulega eigendur en þú ert ekki talinn tengdur aðili samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Þarna er augljóst ósamræmi.

Í tillögum verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni eru lagðar til breytingar á skilgreiningu laganna á hugtökunum tengdir aðilar og raunveruleg yfirráð þannig að hægt sé að ná fram skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu kemur fram að við framkvæmd laga um stjórn fiskveiða hafi komið í ljós erfiðleikar við að staðreyna að um tengda aðila væri að ræða þrátt fyrir vísbendingar um slík tengsl þar sem kveðið væri á um raunveruleg yfirráð. Lagði verkefnastjórnin til að skilgreining tengdra aðila yrði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra og að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiddi til þess að fyrirtæki væru talin tengd, nema sýnt væri fram á hið gagnstæða.

Að auki lagði verkefnastjórnin til að skilgreint yrði hvað fælist í raunverulegum yfirráðum og að kveðið yrði á um að aðilar sem réðu meira en 6% af aflahlutdeild eða 2,5% af krókaaflahlutdeild skyldu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, kaup í félagi sem réði yfir aflahlutdeild eða kaup á hlutdeild. Samþykki Fiskistofu fyrir slíkri ráðstöfun væri forsenda samruna eða kaupa í félagi eða kaupa á hlutdeild og kæmi ráðstöfunin ekki til framkvæmda fyrr en Fiskistofa hefði samþykkt hana.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins tengdir aðilar í lögum um stjórn fiskveiða. Í 1. tölulið 4. mgr. gildandi laga er kveðið á um að aðilar séu tengdir þar sem annar aðilinn, einstaklingur eða lögaðili, á beint eða óbeint meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár í hinum aðilanum eða fer með meiri hluta atkvæðisréttar. Lagt er til að miðað verði við að aðilar teljist tengdir fari annar aðilinn með a.m.k. 25% hlutafjár, stofnfjár eða atkvæðisréttar í hinum, til samræmis við lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, og lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019. Er því gert ráð fyrir því að teljist aðili raunverulegur eigandi annars, teljist þeir tengdir aðilar í skilningi laganna. Ef svona væri staðið að málum, ef þessar breytingar yrðu gerðar í samræmi við samþykktir á öðrum lögum í þessum þingsal, bæði á árinu 2018 og eins á árinu 2019, þá væri eftirlitið með þessu afar auðvelt vegna þess að samkvæmt lögum um skráningu raunverulegra eigenda frá árinu 2019 skal birta, og gera aðgengilegar almenningi, upplýsingar um raunverulega eigendur tækja og félaga. Það yrði þá auðvelt fyrir Fiskistofu að sinna sínu eftirlitshlutverki og ekki yrðu lengur getgátur um það hvernig túlka ætti lögin. Þetta væri algerlega skýrt.

Í öðru lagi er lagt til að til tengdra aðila teljist lögaðilar sem stjórnað er af sömu einstaklingum og hjón, sambúðarfólk, börn þeirra og fósturbörn auk lögaðila í þeirra eigu.

Í þriðja lagi er lögð til ítarlegri skilgreining á því hvað felist í raunverulegum yfirráðum en kveðið er á um í gildandi lögum um stjórn fiskveiða. Er lagt til að með raunverulegum yfirráðum sé átt við rétt sem skapast með samningum eða einhverjum þeim hætti sem gerir aðila kleift að hafa afgerandi áhrif á félag, með eignarhaldi eða rétti til að nota eignir félags, allar eða að hluta, eða með rétti til að hafa afgerandi áhrif á samsetningu, atkvæðagreiðslu eða ákvarðanir stofnanafélags.

Að lokum er kveðið á um málsmeðferð Fiskistofu þegar samanlögð aflaheimild einstakra aðila og tengdra aðila er yfir 6% af heildarverðmæti allra tegunda sem sæta takmörkunum á leyfilegum heildarafla. Ber í þeim tilvikum að tilkynna til Fiskistofu hverja þá ráðstöfun sem leiðir til hækkunar á aflahlutdeild áður en slík lögskipti koma til framkvæmda. Kemur ráðstöfunin ekki til framkvæmdar fyrr en að lokinni athugun Fiskistofu á málinu.

Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júní 2021 en þeim aðilum sem fara umfram leyfilega aflahlutdeild samkvæmt frumvarpinu verði veittur frestur til loka fiskveiðiársins 2023/2024 til þess að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að aflahlutdeild rúmist innan lögbundinna marka.

Forseti. Sá vandi hefur staðið yfir allt of lengi að Fiskistofa hefur ekki treyst sér til þess að meta hvort aðilar séu tengdir og hvort 12% markinu hafi verið náð þótt við leikmenn horfum upp á stór útgerðarfyrirtæki, sömu og við vitum að er stýrt og í eignarhaldi tengdra aðila. Þessi þróun er ekki góð og hún getur verið hættuleg eins og ég hef farið hér yfir. Hér er um að ræða fiskveiðiauðlind okkar allra, fiskveiðiauðlindina sem á að skila okkur öllum hag en ekki útgerðarrisum að stærstum hluta. Einnig eru fiskvinnsla og fiskveiðar grundvallaratvinnugrein og nýsköpun í þeirri grein er á hraðri uppleið. Þetta er mikilvæg atvinnugrein og við eigum að sjá til þess að um hana gildi sanngjarn rammi og við eigum að huga að almannahag alla leið í þessu máli sem öðrum sem við vinnum hér á Alþingi. Því miður hefur sérhagsmunagæslan haft yfirhöndina þegar kemur að fiskveiðiauðlindinni okkar og fénýtingu hennar. Þá þróun verður að stöðva. Við getum byrjað á að stíga þetta skref.