151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

lagasetning um sóttvarnir.

[13:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þau smit sem við sjáum núna má rekja til smits sem kom yfir landamærin, hjá aðila sem hélt ekki sóttkví, kom hingað til lands fyrir 1. apríl, bæði fyrir gildistöku reglugerðar um sóttkvíarhótel sem og fyrir gildistöku þess regluverks sem tók við af þeirri reglugerð þegar hún var dæmd ólögmæt. Þannig að við verðum að hafa það í huga að það er erfitt að draga of miklar ályktanir um núverandi ráðstafanir út frá þessu tiltekna smiti. En það breytir því ekki að við þurfum að sjálfsögðu að horfa til þess hvernig við getum tryggt að það regluverk sem við höfum verið með á landamærum, sem er að mörgu leyti mjög skilvirkt og gott, þ.e. tvöföld skimun, krafa um neikvætt PCR-próf og sóttkví á milli, sé virt, því að í raun og veru snúast þessi smit ekki um fyrirkomulagið sjálft heldur að fólk fylgir ekki fyrirkomulaginu. Og það er mjög miður. Það er mjög eðlilegt að við öll sem hér erum á Alþingi skynjum núna gremju hjá þeim sem leitast við að fylgja reglunum og sjá núna afleiðingar af slíkum brotum. Þess vegna var ákveðið að grípa til ráðstafana innan núverandi lagaramma. Og af því að ég var spurð að því einhvers staðar hvort löggjöfin væri einhvers konar mistök af hálfu löggjafans þá lít ég ekki svo á. Ég lít svo á að löggjafinn hafi þá talað skýrt. Þannig að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru eðlilega að skoða það hvernig herða mætti rammann innan gildandi lagaramma. Það sem ég hef hins vegar sagt og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra er að ef við metum að það sé ekki fullnægjandi þá erum við að sjálfsögðu reiðubúin að skoða breytingar á lögunum þannig að unnt sé að tryggja sem best að svona atvik endurtaki sig ekki. Það er auðvitað mikill skaði sem verður af einu svona broti og algerlega óásættanlegt hversu miklum skaða slík brot geta valdið.