Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

aðgerðir í sóttvörnum.

[13:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Mér fannst hv. þingmaður spyrja um tvennt og ég ætla að byrja á því fyrra sem varðar stöðuna í faraldrinum. Það er auðvitað svo, herra forseti, að íslensk stjórnvöld hafa staðið sig gríðarlega vel í þessari baráttu og það er fyrst og fremst vegna þess frábæra fagfólks sem við eigum hér á landi sem hefur veitt okkur ráðleggingar og hins vegar vegna samstöðu þjóðarinnar í þeirri baráttu. Ég held að við eigum ekki að gera lítið úr því hvernig staðan hefur verið hér ef við berum okkur t.d. bara saman við aðrar þjóðir í Evrópu. Hér hefur mun vægari aðgerðum verið beitt, hér hafa verið skilvirkar aðgerðir í gildi á landamærum og hér hefur verið unnið út frá þeirri hugmyndafræði að við treystum fólki. Auðvitað er gremjulegt þegar fólk reynist ekki traustsins vert. Það þarf svo fáa til til að valda miklum skaða og það er dapurlegt. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að missa traustið á fólki heldur alltaf að ganga fram af ákveðinni hófsemd í því sem við gerum. Það höfum við gert og því höldum við alltaf áfram með það skýra sjónarmið að við ætlum að vernda líf og heilsu landsmanna.

Hvað varðar þau sem hafa mörg hver, eins og hv. þingmaður bendir á, eðlilega einangrað sig mjög undanfarin misseri vegna faraldurs og vegna undirliggjandi sjúkdóma fagna ég því einmitt að framgangur bólusetningar sé með þeim hætti að núna sjáum við að eldra fólk, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og framlínufólk er smám saman að komast í skjól. Það eru stóru tíðindin núna sem gera stöðuna svo miklu bjartari en hún var fyrir u.þ.b. ári að því leytinu til að við sjáum fram á að við komum þessum viðkvæmu hópum í skjól, að skaðinn af smitum minnki smám saman í samfélagi okkar og við getum öll farið að eiga eitthvað sem nálgast eðlilegt líf.

Í seinna svari mínu kem ég nánar að því sem hv. þingmaður spurði um varðandi efnahagsstöðu þessara hópa. Við höfum auðvitað (Forseti hringir.) rætt það margoft og ekki er hægt að segja að þar höfum við skilað auðu því að fjölmargar af aðgerðum okkar hafa einmitt snúið að því (Forseti hringir.) að bæta stöðu tekjulægstu hópanna eins og ég mun fara yfir hér á eftir.