151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

aðgerðir í sóttvörnum.

[13:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég get ekki verið sammála henni. Jú, við höfum gert ýmislegt gott en við ættum að vera á sama stað og Nýja-Sjáland og Ástralía, við gætum það auðveldlega. Ef við hefðum bara farið eftir sérfræðingunum á sínum tíma. Það er verið að tala um að það sem við vorum að gera núna fyrir 1. apríl hafi ekki skipt máli af því að það var áður sem þessi veira kom inn, en við áttum að vera búin að gera eitthvað löngu áður. Við áttum að vera löngu búin að ganga frá því og við töldum að það væri verið að gera það á sínum tíma þegar við vorum að setja nýju sóttvarnalögin. Ég er ítrekað spurður að því hvort ég sé ekki löngu búinn að fá sprautu, bólusetningu. Ég segi: Nei. Þá er mér sagt að ríkisstjórnin sé búin að fá bóluefni, en ég hef ekki hugmynd um það. En hitt sem fólk er að spyrja um eru aukaskammtar sem verða eftir. Hefur það komið inn á borð ríkisstjórnar hverjir það eru sem fá þessa aukaskammta af bóluefni? Það var ein manneskja sem sagði við mig um daginn: Ég var kölluð inn, ég átti að fá bólusetningu og ég hef ekki hugmynd um hvers vegna, ég var ekki í neinum forgangshópi. Hún fékk aukaskammt.