151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

upptaka litakóðunarkerfis.

[13:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir og mér finnst hann vera að ræða tvennt í sinni fyrirspurn. Annars vegar er það það sem við höfum komið að áður í þessum fyrirspurnatíma sem eru brot á sóttkví. Ég held að litakóðunarkerfi hafi í raun og veru ekkert með það að gera. Eins og staðan er núna eiga allir að fara í fimm daga sóttkví nema þau sem koma frá Grænlandi. Þau eru undanþegin aðgerðum því að þau eru metin koma frá lágáhættusvæði af okkar sóttvarnalækni. Það er auðvitað flókið mál að eiga við þetta því að langflestir virða reglurnar og halda sóttkví. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld finni leið til að ná utan um þau sem brjóta sóttkví, halda ekki reglurnar og valda ómældum skaða með framferði sínu, án þess endilega að það bitni á öllum hinum sem eru að gera sitt besta og fylgja reglunum. Þetta er úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir og erum að vinna að leiðum til að nálgast, m.a. með því sem ákveðið var að gera í kjölfar þess að reglugerðin var dæmd ólögmæt og tekið upp hertara eftirlit, en þar kunna fleiri leiðir að koma til greina, eins og ég nefndi áðan hvað varðar hugsanlegar auknar lagaheimildir.

Síðan er það litakóðunarkerfið sem hefur valdið töluverðri umræðu. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þegar við ræddum um að við vildum reyna að fara inn í slíkt kerfi með vorinu hékk það að sjálfsögðu í fyrsta lagi á stöðu faraldursins hér heima og erlendis, í öðru lagi á útfærslunni og þar þarf að skoða hvernig okkar áhættumat rímar við þetta litakóðunarkerfi. Það eru líka vandamál sem felast í því að þar geta breytingarnar orðið mjög hraðar og gerst fyrirvaralítið, lítum bara á Ísland sem var grænt en er hætt að vera grænt. (Forseti hringir.)

Í þriðja lagi er það sú ánægjulega breyting sem við sjáum, þ.e. að fólk með vottorð sem hingað er að koma og fer í gegnum einfalda skimun var (Forseti hringir.) fyrstu tólf daga aprílmánaðar fjórðungur allra sem komu til landsins. Það er auðvitað mjög ánægjuleg breyting.