151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

upptaka litakóðunarkerfis.

[13:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er tvennt, en ég er aðallega að fókusera á litakóðunarkerfið. Það er annars vegar þetta með að herða sóttvarnirnar, sem virðist þurfa að gera af því að það er ekki nóg að vera með þá leið sem farið var af stað með, með PCR-vottorðið á brottfararstað, umfram það sem var, þ.e. þessa skimun, fimm daga sóttkví og skimun. En það virðist ekki vera nóg. Þá hugsa ég: Hvers vegna er þá verið að klippa af seinni skimun innan lands og líka sóttkvína fyrir þá sem koma frá grænum og appelsínugulum löndum? Þarna er ekki bara verið að herða sóttvarnir, það er verið að fjarlægja sóttkvína hjá þeim aðilum sem koma frá grænum eða appelsínugulum löndum. Ég veit hvers vegna farið var af stað með þetta. Það var þannig að gefið var út PCR-vottorð á brottfararstað til að meta síðan hvort hægt væri að fara þessa leið með litakóðunarkerfið, að afnema síðari skimun innan lands og sóttkvína fyrir suma hópa. En staðreyndin er sú að það virkar ekki og þar af leiðandi getum við ekki haldið áfram með kerfi sem var grundvallað á því að það myndi virka og duga fyrir sóttvarnir. Það þarf að fresta því. Ég get ekki séð annað en að það þurfi að fresta því, því að annars þarf að vera með hertar aðgerðir innan lands. Það er það sem er á vogarskálunum. Það er það sem ég er að spyrja um.