151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[13:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ekki með á nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli. Það kemur til af einni ástæðu sem er ákvæði um svokallaða raflínunefnd. Þar er ráðherra heimilað, að beiðni framkvæmdaraðila flutningskerfis raforku, að skipa sérstaka raflínunefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og samþykkja raflínuskipulag fyrir framkvæmdir í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og veita framkvæmdaleyfi fyrir henni. Tekur raflínunefndin þannig sameiginlega skipulagsákvörðun þvert á sveitarfélagamörk. Ég tel að hér sé skapað hættulegt fordæmi hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald, hvert á sínu svæði. Að auki get ég hreinlega ekki séð að þetta nýja fyrirkomulag muni leysa þann vanda sem því er ætlað að leysa. Á tíðum finnst mér ríkisvaldið vera að seilast æ meira í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Ég er alfarið andvígur því. Því mun ég ekki greiða atkvæði í þessu máli.