151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[13:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom svo sem inn á það sem ég ætlaði að vekja athygli á, þ.e. að við 2. umr. var kallað eftir því að málið færi til nefndar milli 2. og 3. umr. Ég tók heils hugar undir það í ræðu minni og vildi bara vekja athygli á því að hægt væri að setjast yfir málið aftur þar. Skoðun mín er sú að í nefndaráliti hv. meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar séu vel hnýttir hnútar um að þetta sé ekki á nokkurn hátt fordæmisgefandi heldur sé aðeins verið að bregðast við ástandinu sem upp kom. Við skulum muna af hverju við fórum af stað með þetta. Það var vegna óveðursins og eingöngu vegna óveðursins sem við ákváðum að stíga þessi skref. En það verður sest yfir þetta, eins og fleiri atriði þarna, í umhverfis- og samgöngunefnd á milli umræðna.